Handbolti

Flóttinn úr Digranesinu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Bjarka Sigurðssonar bíður erfitt verkefni að koma HK í hóp þeirra bestu á ný.
Bjarka Sigurðssonar bíður erfitt verkefni að koma HK í hóp þeirra bestu á ný. vísir/andri marinó
„Við erum búnir að missa helvíti mikið. Það er ekki hægt að neita því,“ segir Bjarki Sigurðsson, þjálfari HK, en hann hefur mátt sjá á bak heilum sjö lykilmönnum í sumar. Það er heilt lið í handbolta.

HK féll úr Olís-deildinni síðasta vetur og bestu menn liðsins hafa ákveðið að reyna fyrir sér með öðrum liðum í efstu deild og einn fór til Svíþjóðar. Þó svo þetta sé mikið högg þá er Bjarki ekki af baki dottinn.

„Ég verð áfram með liðið og Jón Gunnlaugur Viggósson mun aðstoða mig ásamt því sem hann sér um 2. og 3. flokk. Þetta verður bara uppbygging hjá okkur og kannski bætum við við okkur eldri leikmönnum til að fá smá reynslu.“

Bjarki segir að það séu ekki til neinir peningar fyrir útlendingum og liðið verði byggt upp á þeim strákum sem eru eftir hjá félaginu.

„Annar flokkurinn okkar er mjög efnilegur. Það verður álag á þeim strákum næsta vetur. Við ætlum að vinna með þessa drengi og sjá til þess að þeir beri uppi merki félagsins um ókomin ár. Þetta eru hungraðir strákar sem vilja æfa eins og skepnur.“

Bjarki segir að umhverfið í handboltaheiminum í dag geri liðum afar erfitt fyrir að byggja upp lið.

„Ég er auðvitað svolítið fúll yfir því að flóttinn sé svona svaðalegur hjá okkur. Ég geri mér að sama skapi grein fyrir því að menn vilja spila í efstu deild. Þessir samningar í dag eru líka bara eitt plús eitt ár. Það eru í raun bara eins árs samningar. Leikmenn geta því alltaf hlaupið í burtu hvert sumar. Ég er búinn að vera í þessu lengi og veit að það tekur að minnsta kosti eitt ár að búa til lið. Í gamla daga voru þetta 2 plús einn samningar og þá var þetta auðveldara.“

Lárus Helgi er einn þeirra sem hafa farið frá HK í sumar.vísir/andri marinó
Þessir hafa flúið úr Digranesinu í sumar:

Atli Karl Bachmann - Víkingur

Daði Laxdal Gautason - Grótta

Garðar Svansson - FH

Guðni Már Kristinsson - líklega á leið í Aftureldingu

Leó Snær Pétursson - HK Malmö

Þorgrímur Smári Ólafsson - Fram

Lárus Helgi Ólafsson - Grótta




Fleiri fréttir

Sjá meira


×