Erlent

Flóttamenn frusu í hel nærri Líbanon

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Leiðin er háskaleg því hún liggur um fjalllendi auk þess sem stórhríð skall á um helgina. Myndin er af Sýrlenskum flóttamanni í flóttamannabúðum í Líbanon en tengist efni fréttarinnar ekki beint.
Leiðin er háskaleg því hún liggur um fjalllendi auk þess sem stórhríð skall á um helgina. Myndin er af Sýrlenskum flóttamanni í flóttamannabúðum í Líbanon en tengist efni fréttarinnar ekki beint. Vísir/afp
Fimmtán flóttamenn frusu í hel eftir þeir reyndu að komast frá Sýrlandi og yfir landamærin til Líbanon. Leiðin er háskaleg því hún liggur um fjalllendi auk þess sem stórhríð skall á um helgina.

Lík þrettán þeirra fundust í gær og tvö fundust í dag. Börn voru á meðal hinna látnu.

Líkin fundust eftir að almannavörnum í Líbanon hafði verið gert viðvart að hópur flóttamanna væri í vanda staddur nærri Masnaa.

Smyglarar leiddu hópinn í ógöngur og skildu hann eftir í sjálfheldu að því er fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins BBC. Tveir hafa verið handteknir í tengslum við málið.  

Unnt var að koma nokkrum til bjargar sem fundust á lífi á þessum slóðum, meðal annars var ungum dreng sem ráfaði einsamall í námunda við landamæri Líbanon komið í öruggt skjól.

Fólkið sem lést með þessum hræðilega hætti fetaði sömu slóð og hundruð þúsunda Sýrlendinga hafa áður farið í sjálfsbjargarviðleitni til að flýja stríðsástandið heima fyrir.

Líbanon hefur tekið á móti milljón Sýrlendingum frá því stríðið hófst árið 2011.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×