Erlent

Flóttamenn aldrei verið fleiri

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Bjarga hefur þurft fjölda flóttamanna úr sjávarháska á Miðjarðarhafi.
Bjarga hefur þurft fjölda flóttamanna úr sjávarháska á Miðjarðarhafi. Nordicphotos/AFP
Aldrei hafa verið fleiri flóttamenn á vergangi í heiminum en í dag. Þetta kemur fram í ársskýrslu mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna sem birt var í gær á alþjóðlega flóttamannadeginum.

Alls eru rúmlega 65 milljónir flóttamanna í heiminum. Ýmist innan eigin lands eða utan þess. Á sama tíma í fyrra voru flóttamenn um sextíu milljónir, fimm milljónum færri. Rúmur helmingur allra flóttamanna kemur frá þremur löndum. Þau eru Sýrland, Afganistan og Sómalía.

Þrátt fyrir áhersluna sem lögð hefur verið á flóttamenn í Evrópu eru 86 prósent flóttamanna hýst utan álfunnar. Tyrkland hýsir flesta, 2,5 milljónir, og Pakistan og Líbanon eru skammt á eftir.

Fjöldi flóttamanna í heiminum þýðir að nærri eitt prósent heimsbyggðarinnar eru flóttamenn, eða einn af hverjum 113. Í skýrslunni kemur einnig fram að 24 bættust við í hóp flóttamanna á hverri mínútu á síðasta ári og að helmingur allra flóttamanna séu börn undir átján ára aldri.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 21. júní 2016




Fleiri fréttir

Sjá meira


×