Erlent

Flóttafólk drukknaði er fiskibát hvolfdi í gær

Þórdís Valsdóttir skrifar
Ítalski sjóherinn náði myndum af því er fiskiskip flóttamannanna fórst á Miðjarðarhafi í gær.
Ítalski sjóherinn náði myndum af því er fiskiskip flóttamannanna fórst á Miðjarðarhafi í gær. Nordicphotos/AFP
Fiskiskipi hvolfdi á Miðjarðarhafinu, undan ströndum Líbíu, í gærmorgun. Hundruð flótta- og farandfólks var um borð í skipinu og talið er að í það minnsta sjö manns hafi drukknað. Skipið var á leið til Ítalíu þegar slysið varð.

Skipinu hvolfdi þegar fólkið um borð hópaðist yfir á aðra hlið bátsins eftir að skip ítalska sjóhersins birtist.

Ítölsku hermennirnir björguðu yfir fimm hundruð manns af fiskiskipinu. Þeir náðu myndum af því þegar skipið fór á hliðina og hundruð manna börðust fyrir lífi sínu í sjónum.

Mikill straumur flóttamanna frá Afríku til Evrópu er vaxandi vandamál. Á síðustu dögum hefur hátt í sex þúsund flóttamönnum verið bjargað af ótraustum bátum í Miðjarðarhafi. Talið er að fjörutíu þúsund manns hafi verið bjargað frá áramótum. Batnandi veður er talin orsök þess að flóttamönnum hefur fjölgað ört síðustu daga.

Mannúðarsamtök telja að flóttafólk leiti í auknum mæli frá Afríku til Evrópu í gegnum Líbíu eftir að samningur Evrópusambandsins gerði það að verkum að leiðin um Tyrkland varð torfarnari. Samningurinn kveður á um að allir flóttamenn sem koma í gegnum Tyrkland til Grikklands í leit að hæli eigi hættu á því að verða sendir aftur til Tyrklands.

Rúmlega þrjátíu þúsund flóttamenn hafa komið til Ítalíu frá Afríku á þessu ári.

Ekki er hægt að fullyrða að svo stöddu frá hvaða löndum þeir flóttamenn sem bjargað hefur verið undanfarna daga eru en talið er að meirihluti þeirra komi frá Afríkulöndunum sunnan Sahara.

Sérfræðingar spá því að flóttamenn frá Írak, Sýrlandi og öðrum Mið-Austurlöndum sem leitað hafa eftir hæli í Evrópu með því að fara til Grikklands muni í auknum mæli ferðast frá Norður-Afríku til Suður-Ítalíu.

Meira en milljón manns sóttu um hæli í Evrópu á síðasta ári, þar af nærri helmingur sýrlenskir ríkisborgarar.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 26. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×