Sport

Flosrún með þrennu og íshokkí-stelpurnar okkar unnu stórsigur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenska kvennalandsliðið í íshokkí komst aftur á sigurbraut í 2. deild í heimsmeistaramóts kvenna á Akureyri í kvöld þegar liðið vann 6-0 stórsigur á Tyrkjum.

Íslenska liðið vann 7-2 sigur á Rúmenum í fyrsta leik en tapaði síðan fyrir Mexíkó í leik tvö á þriðjudagskvöldið. Stelpurnar bættu fyrir það tap með góðum sigri í kvöld.

Flosrún Vaka Jóhannesdóttir fór á kostum í leiknum og skoraði þrennu en hin mörkin skoruðu þær Sunna Björgvinsdóttir, Þorbjörg Eva Geirsdóttir og Eva María Karvelsdóttir.

Sunna Björgvinsdóttir er búin að skora í öllum leikjum Íslands á mótinu og er markahæst í íslenska liðinu ásamt Flosrúnu en báðar hafa skorað fjögur mörk í fyrstu þremur leikjunum.

Flosrún Vaka átti líka eina stoðsendingu en aðrar sem voru með stoðsendingu í kvöld voru þær Linda Brá Sveinsdóttir (2), Guðrún Marín Viðarsdóttir (2), Anna Sonja Ágústsdóttir (2), Ragnhildur Kjartansdóttir og Eva María Karvelsdóttir

Íslenska liðið átti alls 53 skot í leiknum og það var því algjör skothríð að marki Tyrkjanna í þessum leik. Silvía Rán Björgvinsdóttir átti flest eða níu en henni tókst þó ekki að skora í kvöld.

Íslenska liðið mætir Nýja-Sjálandi í fjórða leik sínum á morgun. Mexíkó hefur unnið alla þrjá leiki sína og er á toppnum en íslensku stelpurnar eru í öðru sæti og eina liði sem hefur unnið tvo leiki fyrir utan Mexíkó.

Mexíkó vann nauman 1-0 sigur á Nýja-Sjálandi í dag og Spánn vann 8-1 stórsigur á Rúmeníu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×