Innlent

Flöskur og dósir gáfu auka 300 milljónir

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Alls seldust um 142 milljónir eininga af skilaskyldum umbúðum í fyrra hér á landi. Greiddar voru 1.940 milljónir í skilagjald.
Alls seldust um 142 milljónir eininga af skilaskyldum umbúðum í fyrra hér á landi. Greiddar voru 1.940 milljónir í skilagjald. vísir/anton brink
Endurvinnslan greiddi út 300 milljónum krónum meira vegna skilaskyldra umbúða árið 2016 en árið 2014. Greiddar voru um 1.940 milljónir króna árið 2016, 1.860 milljónir 2015 og 1.640 milljónir 2014. Þetta kemur fram í svari Endurvinnslunnar við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Þar kemur fram að árið 2016 voru seldar um 142 milljónir eininga af skilaskyldum drykkjarumbúðum á Íslandi, en þar er átt við sölu á umbúðunum til neytenda, til dæmis þegar verslanir selja gosdrykki.

Þetta er annað árið í röð þar sem salan eykst um 6 prósent. Í svari Endurvinnslunnar kemur fram að þetta skýrist meðal annars með aukningu ferðamanna. Skil á umbúðunum til Endurvinnslunnar fóru þó örlítið minnkandi annað árið í röð og var 121 milljón eininga skilað, eða 85,2 prósentum af þeim umbúðum sem voru seldar. Eins og áður eru mestu skilin í áldósum, eða tæplega 88%. Helgi Lárusson, framkvæmdastjóri Endurvinnslunnar, segir í svarinu að Íslendingar séu í hópi þeirra þjóða sem standi sig best í skilum.

Helgi Lárusson, framkvæmdastjóri Endurvinnslunnar
„Skýringar á minni skilum er líklega helst að finna í fjölda ferðamanna, en þeir þekkja fæstir hvernig skilakerfið virkar, enda margir óvanir skilakerfum á sínum heimaslóðum,“ segir Helgi í svarinu. Hann segir að í góðærinu á árunum 2004-2007 hafi skil okkar minnkað. Sennilegast hafi hvatinn til að skila verið minni vegna góðs efnahagsástands. „Nú virðist þó sem landinn sé duglegri og meðvitaðri um umhverfisþáttinn en áður,“ segir hann.

Helgi segir flókið að reikna út nákvæman ávinning af því að endur­vinna drykkjarvöruumbúðir. Á mannamáli má þó segja að kolefnisjöfnun vegna endurvinnslu plasts og áls samsvari kolefnisbindingu um sex milljóna trjáa á ári. „Hver flaska skiptir því máli,“ segir Helgi.

Skilagjald hækkaði hinn 1. mars 2015. Nú er það 16 krónur en var áður 15 krónur á stykkið.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×