Enski boltinn

Flores: Deeney á skilið að vera valinn í enska landsliðið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Flores og Deeney ná vel saman.
Flores og Deeney ná vel saman. vísir/getty
Samband Quique Sánchez Flores og Troy Deeney, knattspyrnustjóra og fyrirliða Watford, virðist vera afar náið og gott.

Þeir hafa verið duglegir að hrósa hvor öðrum í fjölmiðlum en Deeney hefur m.a. líkt Flores við Sir Alex Ferguson, fyrrverandi knattspyrnustjóra Manchester United.

Í blaðamannafundi í dag fór Flores svo fögrum orðum um Deeney og hvatti Roy Hodgson til að velja hann í enska landsliðið.

„Ég sagði það fyrir svona mánuði síðan - Deeney hefur allt til að spila með landsliðinu, kraft og klókindi,“ sagði Flores um fyrirliðann sinn sem hann telur að geti unnið vel með Harry Kane og Jamie Vardy í framlínu enska liðsins.

„Hann skilur enska boltann fullkomlega. Hann getur spilað með Kane og Vardy og er mjög fjölhæfur.

„Ég hef ekki talað við Roy Hodgson og á ekki von á að heyra í honum. En það væri frábært ef landsliðsþjálfarinn myndi skoða leikmennina mína hjá Watford. Deeney verðskuldar að vera valinn í landsliðið.“

Deeney, sem er 27 ára, hefur leikið alla 25 deildarleiki Watford á tímabilinu; skorað sex mörk og átt sex stoðsendingar.

Þrátt fyrir aðeins einn sigur í síðustu átta leikjum er Watford í 10. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 33 stig, 10 stigum frá fallsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×