Erlent

Flokkur Pútíns getur nú breytt stjórnarskrá Rússlands að vild

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Vladimír Pútín forseti óskar Dmitrí Medvedev forsætisráðherra til hamingju með stóra sigurinn.
Vladimír Pútín forseti óskar Dmitrí Medvedev forsætisráðherra til hamingju með stóra sigurinn. vísir/epa
Næsta kjörtímabil verða meira en þrír af hverjum fjórum þingmönnum rússnesku dúmunnar, neðri deildar rússneska þingsins, þingmenn Sameinaðs Rússlands, stjórnarflokks þeirra Dmitrís Medvedev forsætisráðherra og Vlad­imírs Pútín forseta.

Þetta þýðir að flokkurinn getur í reynd breytt stjórnarskrá landsins að vild án þess að þurfa stuðning frá neinum öðrum flokkum.

„Þetta var góður árangur,“ sagði Pútín þegar hann heimsótti kosningamiðstöð flokksins á sunnudagskvöld. „Fólk hefur greitt Sameinuðu Rússlandi atkvæði sitt, jafnvel þótt ástandið sé ekki gott.“

Hann sagðist telja að vegna þess að ástandið er ekki sem best þá vilji fólk fá stöðugleika: „Ég held að þannig líði fólkinu og það vill þennan stöðugleika. Í svona flókinni stöðu vill það hafa öryggi í landinu, í stjórnmálunum og á þingi.“

Kosningaþátttakan hefur hins vegar aldrei verið minni, ekki nema 47 prósent. Í reynd var það ekki nema fjórðungur kosningabærra manna sem tryggði flokknum þennan yfirgnæfandi meirihluta.

Þessi lélega kosningaþátttaka virðist benda til lítils áhuga almennings á kosningunum. Hún gæti einnig bent til þess að stuðningur almennings við Pútín sé kannski ekki jafn afgerandi og talið hefur verið. Áhugaleysið gæti einnig stafað af því að aðrir valkostir hafi ekki þótt líklegir til að ná miklu fram.

Flokkur hans hlaut 54 prósent atkvæða í þingkosningunum á sunnudag og 343 af 450 þingmönnum. Í síðustu kosningum, sem haldnar voru árið 2011, hlaut flokkurinn 49 prósent og 238 þingsæti, þannig að hann hefur nú bætt við sig 105 þingsætum.

Þrír aðrir flokkar náðu mönnum á þing. Kommúnistaflokkurinn fékk 13 prósent, þjóðernisflokkur Vlad­imírs Zhirinovskí hlaut einnig 13 prósent og Réttlátt Rússland fékk sex prósent. Allir þessir flokkar hafa stutt stjórn Medvedevs.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×