Erlent

Flokkur Merkel vinnur sigur í Saarlandi

Anton Egilsson skrifar
Kristilegi demókrataflokkurinn, flokkur Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, er sigurvegari kosninganna í þýska sambandslandinu Saarland en gengið var til kosninga þar í dag. Reuters greinir frá.

Samsteypustjórn Kristilega demókrataflokks Merkel og Sósíaldemókrata stjórnar Saarlandi líkt og Þýskalandi sjálfu. Um er að ræða minnsta sambandsland Þýskaland og það næst fámennasta.

Benda útgönguspár til þess að Kristilegi demókrataflokkurinn hafi hlotið 40,1 prósent atkvæða í kosningunum, tæpum fimm prósentustigum meira en í þeim síðustu. Þá hlýtur flokkur Sósíaldemókrata 30,1 prósent atkvæða samkvæmt útgönguspám og stendur þar með í stað frá síðustu kosningum.

„Fólkið ákvað að kjósa stöðugleika og áreiðanleika,” sagði Peter Tauber, aðalritari Kristilega demókrataflokksins, í kjölfar úrslitanna.  

Mikil spenna hefur ríkt í kringum kosningarnar þar sem talið er að niðurstöður þeirra geti varpað ljósi á stöðu Merkel sem sækist eftir fjórða kjörtímabili sínu sem kanslari Þýskalands.

Þingkosningar í Þýskalandi fara fram þann 24. september næstkomandi. Kosið verður til sambandslandsþings Schleswig-Holstein og Norðurrínar-Vestfalíu áður.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×