Innlent

Flóðin í Frakklandi: „Malbikið flaut í burtu“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Bílarnir liggja um alla Cannes eins og hráviði að sögn Sigurðar Orra Kristjánssonar, sem búsettur er í borginni.
Bílarnir liggja um alla Cannes eins og hráviði að sögn Sigurðar Orra Kristjánssonar, sem búsettur er í borginni. Vísir/AFP
„Ég hef aldrei séð annað eins,“ segir Sigurður Orri Kristjánsson, Íslendingur sem búsettur er í Cannes í Frakklandi þar sem gríðarmikil úrkoma olli því að mikil flóð áttu sér stað í gærkvöldi. 16 manns létust og þriggja er saknað.

„Það byrjaði að rigna um kvöldmatarleyti í gær en svo frá 19.30 til 22.30 var bókstaflega eins og einhver væri að hella úr fötu yfir borgina,“ segir Sigurður Orri. „Þetta er mesta rigning sem ég hef séð á ævinni.“

Sigurður Orri starfar á hóteli sem staðsett er ofarlega í Cannes en borgin er byggð á hæð. Það orsakaði það að göturnar sem liggja niður að sjó urðu að risastórum vatnsæðum og allt sem flotið gat hafi hreinlega skolað niður í átt að sjónum.

Sigurður Orri Kristjánsson býr í Cannes.SOK
„Cannes er meira og minna bara ein stór brekka. Gatan sem liggur frá hótelinu mínu og niður í bær er full af litlum veitingastöðum og búðum. Þær eru allar ónýtar. Það hafa verið miklar framkvæmdir á götunni og það er allt farið, malbikið flaut bara í burtu. Það er risastór ráðstefna í bænum núna og þarna voru gestir að reyna að vaða göturnar í jakkafötunum sínum.“

Ástandið eins og eftir dómsdag

Bílar liggja eins og hráviði út um allt og Sigurður Orri segir að ástandið á borginni hafi minnt sig á heimsendakvikmyndir þar sem allt er á rúi og stúi. Ljóst er að tjónið er gríðarlegt og enn er t.d. ekkert internet í Cannes og allir hraðbankar eru enn lokaður.

„Ég keyrði framhjá einu bílastæði í dag og þar láu kannski svona 40 bílar í einni kös í einu horninu, allir í klessu. Það eru tugir eða hundruð bíla hérna úti um allt. Menn muna ekki eftir öðru eins.“

Samkvæmt BBC er talið að á einungis tveimur dögum hafi rigningin í Nice, sem er skammt frá Cannes, samsvarað tíu prósentum af meðalrigningu á ári hverju.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×