Viðskipti innlent

Fljúga til Dyflinnar, Rómar og Billund

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Colosseum í Róm.
Colosseum í Róm. Vísir/AFP
WOW air mun hefja flug til þriggja nýrra áfangastaða í Evrópu næsta vor auk þess að bæta við flugferðum til núverandi áfangastaða. Gert er ráð fyrir 60% aukningu á farþegum milli ára frá 500 þúsund farþegum núna í ár í 800 þúsund farþega á næsta ári. Þetta kemur fram í tilkynningu frá WOW air.

WOW air verður með sex flugvélar í flota sínum næsta sumar en var með fjórar flugvélar síðastliðið sumar. Nýju vélarnar verða af gerðinni Airbus A321,  þrjár vélar að gerðinni Airbus A320 og eina vél að gerðinni Airbus A319.

Flogið verður til Dyflinnar þrisvar sinnum í viku frá og með 2. júní og verður borgin heilsársáfangastaður. Flogið verður á þriðjudögum, fimmtudögum og sunnudögum.

Höfuðborg Ítalíu, Róm mun bætast við flugáætlun frá og með 1. júlí og flogið verður í tvo mánuði, júlí og ágúst einu sinnu í viku á föstudögum.

Frá 12. júní mun vera flogið til Billund í Danmörku á mánudögum og frá Billund á föstudögum.

Aukning verður á flugum til  Amsterdam úr þremur flugum á viku upp í fjögur flug á viku. Frá og með næsta vori mun Amsterdam verða heilsársáfangastaður.

Mikil aukning verður á flugum til núverandi áfangastaða WOW air. Aukning á flugum til Alicante verður úr þremur flugum á viku í fjögur flug á viku frá og með apríl á næsta ári yfir sumartímann. Í ár flýgur WOW air til Alicante út nóvember. Aukning verður til Barcelona úr þremur flugum í fjögur flug á viku frá og með 15. maí á næsta ári og flogið verður út október líkt og í ár. Til Mílanó verður flogið þrisvar sinnum í viku en tvö síðustu sumur flaug WOW air þangað tvisvar sinnum í viku.

Aukning verður líka á heilsársáfangastöðum WOW air. Flugferðir til Parísar verða auknar úr sjö flugum í átta flug á viku. Flug til Berlínar verða enn fleiri á næsta ári, frá fimm flugum í sjö flug á viku. Einnig verður einu auka flugi bætt við á viku til Kaupamannahafnar.

Hætt verður við flug til Zurich og flugum til Stuttgart og Düsseldorf verður fækkað um eitt á viku. Flugáætlun WOW air til London, Lyon, Vilníus og Varsjár verður óbreytt milli ára.

„Nýliðið sumar gekk mjög vel hjá WOW air. Heildartekjur, sætanýting og afkoma var mjög góð.  Jafnframt erum við mjög stolt af stundvísistölum okkar sem voru frábærar sérstaklega með tilliti til þess að þetta var fyrsta sumarið þar sem við vorum að fljúga á eigin flugrekstrarleyfi.  Við erum þakklát fyrir hversu vel okkur hefur verið tekið bæði hér innanlands og erlendis.  Bókunarstaðan fram á veginn hefur aldrei verið betri og því munum við halda áfram að vaxa til að anna aukinni eftirspurn auk þess að bæta við nýjum spennandi áfangastöðum“ segir Skúli Mogensen stofnandi og forstjóri WOW air.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×