Innlent

Flestir telja Katrínu heiðarlega en Bjarna og Sigmund úr tengslum við almenning

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Bjarni, Katrín og Sigmundur starfa fyrir ólíka flokka.
Bjarni, Katrín og Sigmundur starfa fyrir ólíka flokka. Vísir/Samsett mynd
Flestir telja Katrínu Jakobsdóttur, formann Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, gædda jákvæðum persónueiginleikum af stjórnmálaleiðtogum landsins. Þetta er niðurstaða nýrrar könnunar MMR þar sem álit almennings til persónueiginleika nokkurra stjórnmálaleiðtoga var könnuð. Niðurstöðurnar í heild sinni má lesa hér.

Kostirnir sem spurt var um voru: heiðarleiki, persónutöfrar, að standa við eigin sannfæringu, styrkur, tengsl við almenning, leiðtogahæfni, ákveðni, hæfni til að vinna vel undir álagi, skilar árangri, virðing fyrir skoðunum annarra og hagsmunagæsla fyrir almenning.

Katrín var hæst í flestum flokkanna. Þannig töldu 48 prósent þeirra sem spurðir voru Katrínu standa við eigin sannfæringu, 47 prósent töldu hana heiðarlega, 36 prósent töldu hana gædda persónutöfrum, 42 prósent töldu hana ákveðna og 31 prósent taldi hana virða skoðanir annarra. Ólafur Ragnar Grímsson töldu svarendur þann sem helst væri fæddur leiðtogi eða 30 prósent þeirra sem spurð voru. 34 prósent töldu hann standa við eigin sannfæringu, 33 prósent töldu hann sterkan en aðeins 20 prósent svarenda töldu hann heiðarlegan.

Forystumenn í sitjandi ríkisstjórn komu heldur illa út úr könnuninni. Aðeins 9 prósent töldu Sigmund Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, heiðarlegan, 5 prósent töldu hann gæddan persónutöfrum, 11 prósent töldu hann sterkan, 5 prósent töldu hann fæddan leiðtoga, 5 prósent töldu hann í tengslum við almenning og 8 prósent töldu hann starfa vel undir álagi. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, er í jafnlélegum tengslum við almenning og Sigmundur Davíð samkvæmt niðurstöðum könnunnarinnar en hann var þó af fleirum talinn gæddur persónutöfrum en þeirri spurningu svöruðu játandi 20 prósent svarenda. Bjarni  var af 15 prósent svarenda talinn fæddur leiðtogi.

Athygli vekur að helmingur þeirra sem svöruðu könnuninni segja Sigmund Davíð gæddan engan af fyrrtöldum mannkostum, 40 prósent telja Bjarna Benediktsson gjörsneyddan þessum kostum en aðeins 15 prósent svarenda töldu Katrínu Jakobsdóttur vanta alla kostina sem könnunin bauð upp á. 

Spurt var um helstu stjórnmálaleiðtoga landsins.Skjáskot af síðu MMR
Spurt var um helstu stjórnmálaleiðtoga landsins.Skjáskot af síðu MMR
Spurt var um helstu stjórnmálaleiðtoga landsins.Skjáskot af síðu MMR



Fleiri fréttir

Sjá meira


×