Viðskipti innlent

Flestir eiga hlut í Össuri og Sjóvá

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Um 3.000 innlendir fjárfestar eiga bréf í Sjóvá.
Um 3.000 innlendir fjárfestar eiga bréf í Sjóvá. fréttablaðið/gva
Í lok síðasta árs voru rúmlega 21 þúsund hluthafar í íslensku félögunum þrettán sem skráð eru á Aðallista Kauphallarinnar og fjölgaði þeim um rúm 7% milli ára. Þarna eru þó sumir hluthafar margtaldir enda er algengt að eigendur hluta í Kauphöllinni eigi í fleiri en einu félagi. Þetta kemur fram í Markaðspunktum Greiningadeildar Arion banka.

Þar kemur líka fram að hluthafarnir eru flestir í Össuri eða tæplega 3.300. Aftur á móti er einungis um þriðjungur hlutabréfa Össurar í eigu innlendra aðila, en bréf félagsins eru einnig skráð í Danmörku.

Að teknu tilliti til þess má gera ráð fyrir að flestir innlendir fjárfestar séu í Sjóvá, eða um 3.000 talsins, en bréf félagsins voru tekin til viðskipta í Kauphöllinni fyrir tæpu ári. Fæstir voru hluthafarnir í Nýherja, eða 329 talsins og fjölgaði þeim um 51 milli ára.

Samandregnar niðurstöður skattframtala sýna að um 50 þúsund fjölskyldur á Íslandi eigi hlutabréf og hefur sá fjöldi farið vaxandi frá árinu 2011.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×