Lífið

Fleiri velja að dyljast á netinu

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
Smári hefur kennt rannsóknaraðferðir til að rekja ólöglega starfsemi á netinu í Tyrklandi og Úkraínu. Oktavía hefur kennt fólki að dylja sig á netinu víða um heim.
Smári hefur kennt rannsóknaraðferðir til að rekja ólöglega starfsemi á netinu í Tyrklandi og Úkraínu. Oktavía hefur kennt fólki að dylja sig á netinu víða um heim. Visir/Hanna
Það sem almennir notendur verða venjulega varir við á internetinu er aðeins lítill hluti þess.

Þetta er hinn opni hluti sem er efnisskráður og leitarvélar eins og Google geta flett upp og birt skráninguna. Sá hluti sem hefur ekki verið skráður á þann veg er stundum kallaður djúpvefurinn, eða „dark web“. Það þykir mörgum notendum þó villandi uppnefni. Það sé tæknilega merkingarlaust og ruglandi.

Það sem hægt er að segja með vissu er að undir yfirborði hins skráða nets er hægt að vafra um án þess að skilja eftir sig slóð. Nafnleysið getur haft mikla kosti fyrir netnotendur sem þurfa að tryggja öryggi sitt eða vilja frið frá markaðsöflum.

Þar er mikill fjöldi stórra gagnagrunna og bókasafna og vefsíður sem krefjast innskráningar frá viðurkenndum notendum.



Mikil aukning á notkun Tor

Huldunet eru hluti af þjónustu Tor í þeim skilningi að það þarf að beita sérstökum ráðstöfunum til að tengjast þeim. Umferð um huldunetin hefur stóraukist síðustu ár. Í júlí 2013 voru um 800.000 notendur á dag á Tor-netkerfinu um allan heim. Fjöldi daglegra notenda var um 2,5 milljónir árið 2014 og eykst enn.

Europol greindi í umfangsmikilli skýrslu á síðasta ári frá því að meðfram aukinni notkun hulduneta hafi glæpastarfsemi á þeim aukist til muna. Slíkir glæpir krefjist nýrrar nálgunar lögreglu. Nálgun sem kalli á mun öflugri alþjóðlega samvinnu lögregluliða.

Evrópska tölvu- og netglæpamiðstöðin sem Europol starfrækir er fyrirmynd að slíkri samvinnu.

Ríkislögreglustjóri gerir einnig grein fyrir þessu í skýrslu sinni um helstu ógnir á sviði tölvu og netglæpa sem gefin var 

út á þessu ári.

Hvað eru huldunet?

Huldunet veita notendum sínum nafnleynd. Til þess að ná fram leynd á staðsetningu og nafni eru internetsamskiptin flutt á milli fjölda mismunandi staðsetningarpunkta (netþjóna/tölva) og samskiptaslóðinni eytt jafnóðum. Þetta kemur í veg fyrir að hægt sé að rekja upphafsstaðinn. Dæmi um slík netkerfi eru Tor (The Onion Router) og I2P (Invisible Internet Project).

Vandi löggæslunnar er í skýrslunni sagður sá að glæpamenn misnoti nafnleysið. Í raun hafi myndast glæpamarkaður á netinu þar sem alls kyns ólögleg starfsemi er í boði. Þar á meðal viðskipti með ólögleg lyf og fíkniefni, sala á vopnum og stolnum vörum, ofbeldi gegn börnum, leigumorð, mansal og sala á stolnum greiðsluupplýsingum. Einnig standi til boða að kaupa sem þjónustu fjölda tölvu- og netglæpa svo sem klæðskerasniðnar tölvuárásir á einstaklinga eða fyrirtæki/stofnanir (DDoS-árásir, lykilorðaþjófnaður, ruslpóstur o.fl.).

Tor er ómissandi

Smári McCarthy og Oktavía Hrund Jónsdóttir Píratar eiga það sameiginlegt að nota Tor mikið í lífi og starfi. Smári hefur meðal annars kennt rannsóknaraðferðir til að rekja ólöglega starfsemi í gegnum Tor í Tyrklandi og Úkraínu.

„Alls staðar þar sem góðir hlutir geta gerst geta slæmir hlutir einnig gerst,“ segir Smári. „Megnið af ólöglegu starfseminni eru sölusíður fyrir vímuefni, falsaða peninga, og þess háttar. Einnig er eitthvað af klámi, mislöglegu, og hryðjuverkasamtök nota stundum Tor til að fela samskiptasíður sínar,“ segir Smári.

Oktavía segir heiminn allan geta verið hættulegan. Netið sé engin undantekning. „Notum bara sömu reglur á Tor eins og annars staðar, til dæmis ekki að sækja í skuggaleg horn eða sund,“ bendir hún á og minnir á að þrátt fyrir þessi skuggasund á nafnlausa netinu þá sé Tor ómissandi.

„Tor hefur gefið fólki aðgengi að upplýsingum til dæmis í sambandi við kosningar þar sem ritskoðun hefur lokað á t.d. BBC, Al-Jazeera og aðra miðla. Það opnar upplýsingaflæði fyrir fólk sem er að berjast fyrir réttindum og getur ekki eða þorir ekki að tjá sig opinberlega út af mögulegum afleiðingum, svo sem fangelsi og ofbeldi. Tor er ómissandi.“

Forðast leyniþjónustur

Smári hefur starfað við upplýsingaöryggismál og við ýmis mál þar sem tækni og mannréttindi fara saman í rúman áratug.

„Ég hef undanfarin ár unnið sem yfirmaður tæknideildar hjá Organized Crime and Corruption Reporting Project, þar sem ég sá m.a. um öryggismál fyrir rúmlega 200 rannsóknarblaðamenn í Austur-Evrópu og Mið-Asíu. Á undan því var ég „Principal Consultant“ í upplýsingaöryggisdeild hjá alþjóðlegu ráðgjafafyrirtæki, og þar á undan framkvæmdastjóri IMMI, Alþjóðlegrar stofnunar um upplýsinga- og tjáningarfrelsi, þar sem ég sit nú í stjórn.“

Smári notar helst Tor þegar hann vill ekki að það sé hægt að fylgjast með ferðum sínum á netinu. „Það kom sér mjög vel í síðasta starfinu mínu, þar sem ég var mjög oft að leita að upplýsingum um hættulega glæpamenn, eða að reyna að forðast að leyniþjónustur ýmissa landa gætu fylgst með okkur,“ segir Smári.

Hann notar Tor aðallega til að skoða venjulegar vefsíður með einni undantekningu. „Undantekningin er ein fréttaveita um öryggismál sem nokkrir vinir mínir reka, en hana má aðeins nálgast í gegnum Tor,“ segir Smári.

„Blaðamenn og mannréttindabaráttufólk notar Tor daglega til að fela slóð sína, til að minnka líkurnar á eftirliti með sér og ofbeldi gegn sér. Raunin er sú að rafrænt eftirlit er sjaldnast lokamarkmiðið. Það er gríðarlega oft sem rafrænt eftirlit með blaðamönnum og starfsfólki mannréttindasamtaka er undanfari árása,“ bendir hann á.

Kennir fólki að leynast á netinu

Oktavía hefur unnið við að aðstoða blaðamenn og mannréttindaaðgerðasinna um allan heim í öryggismálum til að verja þá hættu. „Bæði hvað varðar netöryggi, líkamsöryggi og það sem við köllum sálaröryggi, útskýrir Oktavía. „Ég tel það vera grunnstoð mannréttinda í heiminum að stjórnvöld og fyrirtæki líti á mannréttindi okkar allra sömu augum á Internetinu eins og í raunheimum,“ segir hún.

Oktavía er afar fær í nafnleysi í netnotkun og kennir fólki að fara leynt á netinu. „Alls staðar eiginlega. Í Bandaríkjunum, Simbabve, Danmörku, Spáni, Keníu, Líbanon, mörgum löndum í Suður-Asíu, Mið-Ameríku, Evr-Asíu og víða í hinum arabískumælandi heimi. Ég hef til dæmis kennt hinsegin fólki að vinna að breytingum með aktivisma. Ég hef kennt blaðakonum að nota Tor í umhverfi þar sem netnotkun er hættuleg fyrir konur og nafnleynd er nauðsynleg, rannsóknarblaðamönnum að vinna í viðkvæmum spillingarmálum, bandarískum blaðamönnum sem vilja vernda sig og heimildir þeirra frá PRISM, finfisher og öðrum löglegum og ólöglegum neteftirlitstólum og pólitískum hreyfingum,“ segir Oktavía.

Venjulegt fólk í felum

Oktavía segir fólk líka nota Tor í þeim einfalda tilgangi að njóta friðhelgi einkalífs síns. „Alveg eins og ég get ekki komið heim til þín og séð hvað þú ert að gera heima hjá þér, þá getur fólk sem er á TOR ekki séð hvað annað fólk er að gera á netinu. Ef fólk upplifir enga friðhelgi, veit að það er verið að fylgjast með ferðum fólks og hagnýta upplýsingar þess um netnotkunina og skerða aðgang að upplýsingum, þá breytir fólk hegðun sinni. Venjulegt fólk er farið að nota nafnleysi á netinu og það af mjög góðri ástæðu,“ segir hún.

Enginn með ökuskírteini

Oktavía bendir á ýmsar ástæður fyrir því að fólk er farið að breyta hegðun sinni á netinu. „Tryggingafyrirtæki, til dæmis í Danmörku, kaupa gögn frá símafyrirtækjum og kortleggja hegðun fólks eftir netnotkun. Þá er neytendum stundum launað í lægra verði ef þeir gefa upplýsingar um sig. Íslendingar eru mikið á Facebook. Hver pælir í því hvað er gert um gögn um Íslendinga á Facebook? Facebook er að selja upplýsingar, það finnst mér ógnvænlegt.

Lögreglan ætti að kanna það; borgaraleg réttindi Íslendinga á Facebook!“

Oktavía notar umferðarmyndlíkingu til að skýra vandamál internetsins. „Mjög fá okkar vita hvernig internetið virkar. Við lærðum það aldrei. Sum okkar voru á traktor í sveit, og vitum þess vegna í grófum dráttum hvernig bílar virka. Ímyndum okkur að þetta sé umferð. Við erum öll í bíl. Enginn er með ökuskírteini. Við skiljum ekki skiltin. Við erum að gera eins og allir hinir og vonum að við lendum ekki í óhappi. Hver er að passa upp á veginn? Hver lagði veginn? Hver er að laga hann þegar það koma göt í hann? Við verðum að skilja þetta nýja umhverfi okkar, þetta skiptir miklu máli,“ segir Oktavía.

Lenti í hlerunum án vitundar

Smári segist hafa áhyggjur af áhuga yfirmanna lögreglunnar á því að fá vopn og forvirkar rannsóknarheimildir. „Það hefur verið agalegt ástand hjá lögreglunni í langan tíma. Hún fær alltof lítinn stuðning, lítið fjármagn og býr við manneklu og óstöðugt starfsumhverfi. Þar af leiðandi er freistandi að vilja stytta sér leið með forvirkum rannsóknarheimildum, í stað þess að láta góðar og gildar rannsóknaraðferðir gilda,“ segir Smári, sem þekkir af eigin reynslu hvernig það er að lenda undir smásjá yfirvalda án ástæðu. „Ég lenti í því fyrir nokkrum árum að bandarískur dómstóll ákvað að ég og 130 aðrir værum áhugaverðir út af einhverju máli. Dómstóllinn sendi kröfu til Google og bað þá um allar tengingar og allt um þessa 130 einstaklinga. Þá var líka dómsúrskurður um að fyrirtækið mætti ekki greina þessum 130 einstaklingum frá rannsókninni. Ég mátti ekki vita af því að bandarískur dómstóll væri með öll gögnin mín fyrr en tveimur árum síðar. Þetta þýddi það að af því að ég fékk ekki að vita að ég væri til rannsóknar þá hafði ég engin lagaleg úrræði til að bregðast við því,“ segir Smári frá.





Þörf mannréttindabarátta

Oktavía tekur undir þetta og segir mikilvægt að efla mannréttindi fólks á netinu. „Það er ekki svo stór munur á mér hér og mér á netinu. Ég vil bara sömu réttindi.

Lögreglan má ekki framkvæma forvirkar rannsóknir og það eru ástæður fyrir því. Vegna þess að lögregla hefur heimildir til að ganga mjög nærri fólki. Hvað ef lögreglan mætti rannsaka hvern sem er án gruns um glæp? Hvað þá? Út frá einhverjum duttlungum. Það gæti orðið mjög ljótt mjög hratt,“ segir hún.

„Ég er á netinu 6-7 tíma á dag. Ég er að búa til punkta um mig. Hvar ég er og hvað ég er að gera. Hvern ég er að tala við, hvern ég þekki. Þú getur tekið öll þessi gögn og búið til hvaða sögu sem er og fært hana fram og sagt: Við sækjum um leyfi til að hlera hana Oktavíu. Hún var í Skeifunni í gær klukkan fjögur. Jón Jónsson, sem við vitum að er að selja eiturlyf var líka í Skeifunni á nammibarnum á sama tíma. Allt í einu er búið að búa til þessa skökku mynd um mig,“ bendir hún á.

Rauðu þríhyrningarnir í Shenzhen

Smári tekur undir og nefnir raunverulegt dæmi sem er líkast vísindaskáldsögu. „Shenzhen í Kína er sú borg heimsins sem er með hvað mest af eftirlitsmyndavélum. Allar myndavélarnar eru tengdar inn í hugbúnað sem er með andlitsgreiningartæki. Þess vegna, þegar þú kemur á flugvöllinn á Hong Kong þá máttu ekki vera með hatt. Ef þú ert með hatt þá kemur einhver og segir þér að taka hann niður. Ástæðan er sú að það er verið að tagga þig inn í kerfið. Alls staðar þar sem þú gengur um. Þetta andlit er á þessum tímapunkti á þessum stað. Flestir eru merktir með grænum ferningi, en þekktir afbrotamenn með rauðum ferningi. Ef þeir sem eru merktir grænir eru oft nálægt þeim sem eru merktir rauðir þá fá þeir svona rauðan þríhyrning fyrir ofan hausinn á sér. Þeir eru þá orðnir varhugaverðir.



Þarf að vernda íslenska borgara

Þau benda bæði á að það sé nauðsynlegt að breyta regluverkinu með það að markmiði að vernda íslenska borgara og upplýsingar þeirra. „Til dæmis heilbrigðisupplýsingar. Friðhelgi einkalífs er gríðarlega mikilvæg og er þungamiðja í allri vinnu er lýtur að netöryggi,“ segir Oktavía og bendir á að menntamálaráðuneytið setti fram fjögur frumvörp um tjáningar- og upplýsingafrelsi nýlega, frumvörp sem byggð eru á þingsályktun frá 2010 sem oft er talað um sem IMMI (Icelandic Modern Media Initiative). „Það er rétta leiðin áfram. Svo verðum við að takast á við það að þróunin síðasta áratug hefur verið með þeim hætti að núna leyfum við fyrirtækjum að hafa réttindi og erum með reglur fyrir fólk. Það ætti að vera öfugt, réttindi fyrir fólk og reglur fyrir fyrirtæki. Við verðum að tryggja mannréttindi okkar á netinu og eins og staðan er í dag erum við að minnka réttindi borgara á netinu,“ segir Oktavía.

Smári segir regluverkið og stofnanir ekki ráða við þær öru breytingar sem eiga sér stað. „Góður vilji hefur ekki skilað nægum árangri, að hluta til vegna skorts á viðunandi tækniþekkingu innan stjórnmálanna. Ekki bætir úr skák að margar þeirra stofnana sem eiga að stuðla að netöryggi, öryggi borgaranna, og gæta að því að mannréttindi séu virt eru illa fjármagnaðar í dag,“segir Smári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×