Erlent

Fleiri sprengjur fundust í Manchester

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Lögreglumann athafna sig fyrir utan íbúðarhús í Manchester í dag.
Lögreglumann athafna sig fyrir utan íbúðarhús í Manchester í dag. Vísir/AFP
Sprengiefni hefur fundist í húsleitum og áhlaupum lögreglu í kjölfar árásarinnar í Manchester á mánudagskvöld. Sprengjurnar eru sagðar mögulega ætlaðar til frekari árása. Þetta kemur fram í frétt Independent. Þá hafa fleiri verið handteknir í tengslum við árásina.

Ein sprengjanna sem fannst var sprengd undir eftirliti lögreglu en heimildarmenn telja líklegt að fleiri sprengjur muni finnast í viðamikilli rannsókn lögregluyfirvalda.

Þá var kona handtekin við húsleit lögreglu í fjölbýlishúsi í Blackley í norðurhluta Manchester. Lögregla handtók einnig mann í Wigan, bæ rétt utan við Manchester, í dag. Hann er sagður hafa haft grunsamlegan pakka í fórum sínum sem lögregla hefur nú til skoðunar. Þriðji maðurinn var handtekinn nú fyrir skömmu í bænum Nuneaton í Warwickskíri.

Þá voru yngri bróðir og faðir árásarmannsins handteknir í Líbýu í dag og eldri bróðir hans handtekinn í Chorlton í suðurhluta Manchester-borgar í gær. Sjö hafa þá verið handteknir í tengslum við árásina.

Salman Abedi sprengdi sig í loft upp í anddyri Manchester Arena á mánudagskvöld er tónleikum söngkonunnar Ariönu Grande var nýlokið. Grande hefur nú aflýst fyrirhuguðum tónleikum sínum á næstu dögum. 22 létust í árásinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×