Fótbolti

Fleiri rauð spjöld en mörk hjá Balotelli í síðustu leikjum: "Sjáum ekki eftir því að fá hann“

Mario Balotelli í leik með Nice.
Mario Balotelli í leik með Nice. vísir/getty
Framherjinn skrautlegi Mario Balotelli á ekki sjö dagana sæla hjá franska 1. deildar liðinu Nice þessar vikurnar. Eftir flotta byrjun með Nice gengur honum ekkert að skora núna.

Þegar Liverpool var endanlega búið að gefast upp á Balotelli, sem komst aldrei í gang á Anfield, voru Nice-menn fljótir að fá hann í Hreiðrið síðasta sumar og byrjunin lofaði góðu.

Ítalski vandræðagemsinn skoraði sjö mörk í fyrstu sjö leikunum og var liðið lengi vel á toppnum í deildinni. Það er enn þá í titilbaráttunni, með 59 stig í þriðja sæti, þremur stigum á eftir toppliði Monaco  þegar ellefu umferðir eru eftir.

Nú er Balotelli aðeins búinn að skora eitt mark í síðustu sex leikjum en fá tvö rauð spjöld. Hann er því búinn að fá fleiri rauð spjöld en skora mörk í síðustu sex.

„Það koma svona tímar hjá öllum leikmönnum,“ segir Jean-Pierre Rivere, forseti Nice, í viðtali við frönsku sjónvarpsstöðina Canal plus.

„Hann byrjaði tímabilið vel en þessa dagana gengur ekki nógu vel. Vonandi fáum við aftur að sjá þann Mario sem byrjaði leiktíðina fyrir okkur.“

„Í heildina erum við ánægðir með hann. Hann er í góðu andlegu ástandi og við sjáum ekki eftir því að fá hann,“ segir Jean-Pierre Rivere.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×