Íslenski boltinn

Fleiri mörk á sig úr föstum leikatriðum en allt síðasta tímabil

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gunnar Nielsen fékk á sig klaufalegt mark eftir fast leikatriði í gærkvöldi.
Gunnar Nielsen fékk á sig klaufalegt mark eftir fast leikatriði í gærkvöldi. vísir/bára
FH fékk skell í stórleik 13. umferðar Pepsi-deild karla í gærkvöldi þegar að liðið tapaði, 4-1, fyrir Breiðabliki á Kópavogsvelli. Blikar komust yfir með skallamarki Thomasar Mikkelsen eftir aukaspyrnu inn á teiginn á 32. mínútu, þvert gegn gangi leiksins. FH jafnaði metin á 52. mínútu.

FH var betri aðilinn fyrstu 75 mínúturnar en Blikar skoruðu annað markið sitt á 76. mínútu og létu kné fylgja kviði með tveimur mörkum til viðbótar. Annað markið, sem að Davíð Kristján Ólafsson skoraði, kom einnig eftir aukaspyrnu inn á teiginn.

Föst leikatriði hafa reynst FH-liðinu erfið á tímabilinu en þetta voru mörk númer níu og tíu sem FH-liðið fær á sig úr föstum leikatriðum. FH hafði þó aldrei í sumar fengið á sig mark eftir aukaspyrnu inn á teiginn.

Hafnafjarðarrisinn er nú búinn að fá á sig fleiri mörk úr föstum leikatriðum en allt síðasta tímabil. FH fékk átta mörk á sig úr föstum leikatriðum í fyrra og stóð sig best í deildinni að verjast þeim ásamt Víkingi sem fékk einnig átta mörk á sig úr föstum leikatriðum.

FH er ekki efst á listanum yfir mörk fengin á sig úr föstum leikatriðum. Þar tróna Fjölnir og Fylkir á toppnum með ellefu mörk á sig. Fylkir fékk á sig tvö í gær og Fjölnir eitt úr vítaspyrnu.

Bæði lið hafa fengið á sig tvö mörk úr vítaspyrnum sem teljast til marka úr föstum leikatriðum samkvæmt tölfræði Instat sem Pepsi-deildin notast við. Þegar vítaspyrnurnar eru teknar frá eru það FH-ingar sem hafa fengið á sig flest mörk úr föstum leikatriðum.

Liðin sem verjast föstum leikatriðum best eru Breiðablik og Grindavík en bæði hafa fengið á sig tvö mörk úr föstum leikatriðum og bæði voru þau vítaspyrnur hjá báðum liðum.

Dreifing marka FH á sig úr föstum leikatriðum:

Eftir horn: 4

Eftir aukaspyrnu inn á teig: 2

Aukaspyrnur beint í mark: 2

Vítaspyrnur: 0

Eftir innkast: 2

Samtals: 10


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×