Viðskipti innlent

Fleiri lykilmönnum sagt upp hjá Wow

Bjarki Ármannsson skrifar
Skúli Mogensen, forstjóri Wow air.
Skúli Mogensen, forstjóri Wow air. Vísir/Vilhelm
Tómasi Ingasyni og Arnari Má Arnþórssyni, framkvæmdastjórum hjá Wow air, var sagt upp störfum í gær eftir aðeins nokkra mánuði í starfi. Líkt og Vísir hefur greint frá, hefur talsvert verið um uppsagnir hjá lykilstjórnendum félagsins á síðustu misserum.

Í samtali við vefinn turisti.is, sem fyrst greindi frá uppsögnunum, segir Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi Wow, að breytingarnar séu liður í því að fylgja lággjaldastefnu félagsins og standa við loforð um að bjóða ávallt lægstu fargjöldin. Ekki er útskýrt nánar hvernig uppsagnirnar stuðli að því.

Hún segir dræma sölu ekki ástæðu uppsagnanna, þar sem félagið hafi sett met í sumar og útlit sé fyrir gott haust og vetur.

Tómas var forstöðumaður viðskiptaþróunarsviðs Wow og hóf störf í byrjun árs. Arnar Már tók við starfi framkvæmdastjóra sölu- og markaðssviðs í maí síðastliðnum. Báðir hafa þeir langa reynslu af störfum hjá Icelandair, en höfðu horfið til annarra starfa áður en þeir tóku við stöðunum hjá Wow.


Tengdar fréttir

Framkvæmdastjóri hjá Wow air sagði upp

Linda Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs WOW air, hefur sagt upp störfum hjá flugfélaginu. Hún hafði starfað hjá félaginu frá árinu 2012.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×