Innlent

Fleiri HIV-smitaðir með risvandamál

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Einar Þór Jónsson, framkvæmdastjóri HIV Ísland segir betur horfa með yngra fólkið.
Einar Þór Jónsson, framkvæmdastjóri HIV Ísland segir betur horfa með yngra fólkið.
Níu af þrettán HIV-smituðum körlum eða 69,2 prósent glíma við risvandamál af einhverju tagi. Þar af eru sjö, eða um 54 prósent, með alvarleg risvandamál. Þetta eru niðurstöður rannsóknar Sigríðar Maríu Kristinsdóttur læknanema á kynheilsu HIV-smitaðra karla.

Sendur var spurningalista til 95 HIV-smitaðra karlmanna og bárust svör frá 26. Ekki reyndist unnt að reikna stigafjölda úr krossaspurningum hjá helmingi svarenda, að því er kemur fram í grein Sigríðar í ritinu Rauða borðanum sem er blað samtakanna HIV Ísland. Sigríður getur þess í greininni að tíðnitölurnar hér séu ekki ólíkar tíðnitölum sem birst hafa erlendis. Ekki sé á hreinu hvað valdi hærri tíðni.

Bent er á að í íslenskri rannsókn frá 2006, þar sem karlmenn voru valdir af handahófi úr samfélaginu, hafi algengi ristruflana hjá 45 til 75 ára verið 35,5 prósent. Hæst hafi hlutfallið verið hjá 65 til 75 ára eða rúmlega 60 prósent.

Einar Þór Jónsson, framkvæmdastjóri HIV Ísland, segir almennt heilsufar HIV-smitaðra vera að færast í betra horf. „Eldri lyfin voru sterkari en þau sem er verið að gefa núna og þau höfðu ýmsar aukaverkanir í för með sér. Ýmis heilsufarsvandamál tengdust töku þeirra og náttúrlega því að vera með veiruna í líkamanum. Erfðaþættir spila líka inn í. Það horfir betur með yngra fólkið og þá sem ekki eru búnir að vera lengi með sjúkdóminn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×