Innlent

Fjórtán ófædd börn tilkynnt í hættu

kristjana björg guðbrandsdóttir skrifar
Í klínískum leiðbeiningum Landspítala um heimilisofbeldi frá nóvember 2012 kemur fram að það er ekki lagaleg skylda heilbrigðisstarfsfólks að kæra eða láta lögreglu vita af ofbeldi í nánum samböndum. Þolandinn verði sjálfur að taka ákvörðun um að stíga slíkt skref.
Í klínískum leiðbeiningum Landspítala um heimilisofbeldi frá nóvember 2012 kemur fram að það er ekki lagaleg skylda heilbrigðisstarfsfólks að kæra eða láta lögreglu vita af ofbeldi í nánum samböndum. Þolandinn verði sjálfur að taka ákvörðun um að stíga slíkt skref.
„Fjórtán tilkynningar bárust Barnaverndarnefnd um að heilsa eða líf ófædds barns væri í hættu fyrstu þrjá mánuði ársins 2015. Flestar tilkynningar koma frá lögreglu, ekki er ljóst hversu margar þeirra eru vegna ofbeldis á meðgöngu.

Hlutfall tilkynninga þar sem heilsu eða lífi ófædds barns var stefnt í hættu hækkaði í 1,0% á fyrstu þremur mánuðum ársins 2015 en var 0,5% fyrir sama tímabil árið á undan.

Sextíu og fimm börn voru í yfirvofandi hættu að mati tilkynnanda fyrstu þrjá mánuði ársins. Í tilkynningum um ofbeldi var hlutfall tilkynninga þar sem um heimilisofbeldi var að ræða 7,4% á fyrstu þremur mánuðum ársins 2015 en 5,0% fyrir sama tímabil árið á undan. Langflestar tilkynningar eru frá lögreglu. 

Alda Hrönn Jóhannsdóttir, aðstoðarlögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, segir mikilvægt að heilbrigðisstarfsfólk sé vakandi fyrir heimilisofbeldi. Rannsóknir sýni að aukin áhætta sé á heimilisofbeldi á meðgöngu. Í umfjöllun Fréttablaðsins í gær um ofbeldi sem kona var beitt á fæðingardeild og var ekki tilkynnt til lögreglu sagðist hún vonast eftir nánara samstarfi við heilbrigðisyfirvöld. Hjúkrunarfræðingur fylgdi verklagsreglum spítalans og tilkynnti atvikið til félagsráðgjafa sem sendi tilkynningu til Barnaverndar. Það var mat starfsmanna á fæðingardeild að ekki þyrfti að kalla til lögreglu þar sem maðurinn var farinn af vettvangi.

Alda Hrönn Jóhannsdóttir
Barnsfaðirinn braut meðal annars síma og tölvu sem unnusta hans var með á fæðingardeildinni og átti atvikið sér stað skömmu eftir að konan hafði gengið í gegnum keisarauppskurð og fleiri en eitt vitni voru að því. Versta ofbeldinu beitti barnsfaðirinn þegar börnin voru átta daga gömul. „Við hefðum gjarnan viljað fá símtal frá heilbrigðisyfirvöldum og atvikið minnir okkur á þörfina á að rýna til gagns í kerfið,“ sagði Alda og minnti á að skammur viðbragðstími væri mikilvægur þegar um líf og heilsu væri að tefla og það hefði verið hægt að koma í veg fyrir alvarlegt ofbeldi með skjótari viðbrögðum. 

Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, segist ekki geta sett sig í dómarasæti um það hvort kalla hefði átt til lögreglu en bendir á að bæði lögregla, heilbrigðisstarfsfólk og barnaverndaryfirvöld hafi brugðist skjótt við. Tilkynning hafi borist Barnaverndarstofu nokkrum klukkutímum eftir atvikið og starfsmaður Barnaverndar vitjað móðurinnar á fæðingardeildina samdægurs. 

Jón Hilmar Friðriksson, framkvæmdastjóri barna -og kvennasviðs, segist ekki geta tjáð sig um einstaka mál en almennt sé þeim verklagsreglum fylgt að atvik sem varði öryggi barna séu tilkynnt til barnaverndar. „En þegar um fullorðið fólk er að ræða þá tekur það sjálft ákvörðun um hvort það hefur samband við lögreglu nema um alvarleg atvik sé að ræða.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×