Erlent

Fjórtán milljónir munu missa sjúkratryggingar

Samúel Karl Ólason skrifar
Sérfræðingar telja að fjórtán milljónir manna muni missa sjúkratryggingar sínar, verði nýtt heilbrigðisfrumvarp repúblikana að lögum. Frumvarpinu er ætlað að leysa heilbrigðislög Barack Obama, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, af hólmi. Donald Trump margsinnis lofað því að allir Bandaríkjamenn yrðu tryggðir og ný lög myndu gera tryggingar ódýrari.

Forsetinn hefur lýst yfir stuðningi sínum við frumvarpið.

Hin hlutlausa stofnun Congressional Budget Office er nokkurs konar ríkisendurskoðun Bandaríkjanna. Stofnunin fer yfir lagafrumvörp og metur áhrif þeirra og mögulegan kostnað. Starfsmenn hennar áætla að eftir að frumvarpið verði að lögum muni alls 24 milljónir manna vera án trygginga á næsta ári. Árið 2026 yrðu ótryggðir orðnir 52 milljónir. Þá áætlar stofnunin að ef lögunum yrði ekki breytt yrðu ótryggðir 28 milljónir árið 2026.

Þá metur stofnunin að frumvarpið muni spara ríkinu 337 milljarða dala á næstu tíu árum. Það samsvarar um 37 billjónum króna.

Frumvarpið hefur orðið fyrir mikilli gagnrýni frá bæði demókrötum og þingmönnum Repúblikanaflokksins, sem segja frumvarpið ekki ganga nægilega langt í að afnema fyrri lögin. Aðrir þingmenn óttast að óvinsældir frumvarpsins muni valda repúblikönum skaða í þingkosningum á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×