Erlent

Fjórtán ára fangelsi fyrir morðtilraun

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Frank S.
Frank S. vísir/afp
Maðurinn sem stakk Henriette Reker, borgarstjóra Kölnar, í hálsinn í fyrra var í dag dæmdur í fjórtán ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps. Ástæðan fyrir hnífstungunni var stefna Reker í málefnum flóttafólks.

Maðurinn, hinn 45 ára Frank S., viðurkenndi verknaðinn en neitaði að hafa ætlað að reyna að verða Reker að bana. Árásin átti sér stað degi áður en Reker varð borgarstjóri, en hún hafði í kosningabaráttu sinni lýst því yfir að hún væri hlynnt komu flóttafólks til landsins.

Reker sagði árásina hafa haft mikil áhrif á sig andlega, til að mynda fái hún enn martraðir. Hún slasaðist alvarlega í árásinni og var haldið sofandi í tæpan mánuð.

Barbara Havliza, sem dæmdi í málinu, sagði við uppkvaðningu dómsins að Frank S. hafi með árásinni viljað senda skilaboð gegn stefnu stjórnvalda í flóttamannamálum. Hann hafi viljað skapa ótta og hafa áhrif á stjórnmál.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×