Erlent

Fjórir lögregluþjónar særðir í Colorado

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögreglan er með mikin viðbúnað. Öll embætti og alríkisstofnanir á svæðinu hafa sent fólk á vettvang.
Lögreglan er með mikin viðbúnað. Öll embætti og alríkisstofnanir á svæðinu hafa sent fólk á vettvang. Vísir/Getty

Þrír lögreglumenn særðust auk almennra borgara þegar árásarmaður hóf skothríð við læknastofu þar sem framkvæmdar eru fóstureyðingar í Colorado Springs í Bandaríkjunum. Árásarmaðurinn hefur nú verið króaður af þar inni, en hann er sagður vera vopnaður sjálfvirkum árásarriffli.

Ekki er vitað hve margir borgarar eru særðir, en lögreglan hefur bjargað gíslum út um glugga á heilsugæslustöðinni. Lengi var ekki vitað hvort að árásarmennirnir væru fleiri en einn og ríkti mikil óvissa á svæðinu. Lögreglan er með gífurlegan viðbúnað við heilsugæsluna.

Hægt er að hlusta á talstöðvarsamskipti lögreglu á vettvangi hér. Fyrr í kvöld mátti heyra lögreglumennina segja að maðurinn væri hvítur, þrekinn og með skegg. Hann var sagður vopnaður AK-47, eða sambærilegum árásarriffli.

Á korti hér að neðan má sjá að árásin átti sér stað á afviknu svæði í Colorado Springs og einungis eru þrjár byggingar á svæðinu. Auk heilsugæslunnar er þar verslunarmiðstöð þar sem mörgum hefur verið skipað að halda kyrru fyrir.

Einn lögreglumaður til viðbótar er nú særður eftir að lögreglan skiptist aftur á skotum við manninn eftir að hann var króaður af. Mikil leit var gerð að honum eftir upprunalegu árásina. Umsátursástand ríkir nú á svæðinu.

Uppfært: Maðurinn hefur nú verið handsamaður. Lögreglan kannar hvort að munir sem hann tók með sér inn í heilsugæslustöðina séu sprengjur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×