Innlent

Fjórir kílómetrar í næsta strætóskýli og veggjalús í tvær vikur

Þorgeir Helgason skrifar
Víðines á Kjalarnesi verður nýtt til að hýsa hælisleitendur.
Víðines á Kjalarnesi verður nýtt til að hýsa hælisleitendur. vísir/gva
Hælisleitendurnir í gistiskýlinu við Bæjarhraun í Hafnar­firði bíða enn eftir því að húsnæði Útlendingastofnunar í Víðinesi á Kjalarnesi verði tilbúið til innflutnings. Veggjalús hefur herjað á fólkið í tvær vikur. Bit lúsarinnar valda útbrotum en hún skríður fram í skjóli nætur og nærist á blóði manna.

Stefnt er að því flytja hælisleitendurna inn í Víðines síðar í þessari viku. Víðines er mjög afskekkt en ganga þarf rúmlega fjóra kílómetra að næsta strætóskýli og svipaða vegalengd í næstu verslun. Áætlað er að Útlendingastofnun sinni samgöngum, eins og hún hefur gert í gistiskýlinu á Arnarholti á Kjalarnesi, en hælisleitendum bjóðast tvær ferðir á dag frá gistiskýlinu að strætóskýlinu.

„Það þarf að frysta öll fötin þeirra og þau þurfa að vera í frosti í að minnsta kosti tvo sólarhringa til að drepa lúsina. Við hjá Rauða krossinum stöndum nú í fatasöfnun fyrir fólkið. En vegna þess að þetta er neyðaraðgerð þá getum við ekki útvegað allan útivistarfatnað fyrir börn og aðra. Þannig að þetta verða kannski tveir dagar af inniveru,“ segir Áshildur Linnet, verkefnastjóri hjá Rauða krossinum. Rauði krossinn vinnur að því að útvega spil og leikföng handa börnunum til þess að stytta þeim stundir á meðan þau dvelja í Víðinesi.

Þórhildur Ósk Hagalín, upplýsingafulltrúi Útlendingastofnunar, segir ekki ljóst hvenær hægt verði að flytja inn í gistiskýlið Víðines. Unnið er að undirbúningi hússins og stefnt er að flutningum í þessari viku. „Mikilvægt er að vel sé staðið að flutningunum til þess að útiloka að lúsin berist með í Víði­nes,“ segir Þórhildur.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×