Innlent

Fjórir kennarar kvörtuðu undan móður til Persónuverndar

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Móðirin mátti senda skýrsluna.
Móðirin mátti senda skýrsluna.
Fjórir kennarar kvörtuðu undan móður til Persónuverndar, vegna þess að hún áframsendi álitsgerð í eineltismáli dóttur sinnar. Móðirin sendi álitsgerðina á aðra kennara í skólanum sem dóttir hennar gengur í og voru fjórir kennarar ósáttir við það því í álitsgerðinni mátti finna vitnisburð þeirra.

Töldu kennararnir þetta vera brot á lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, eins og kemur fram á vef Persónuverndar. Kennarar lögðu inn formlega kvörtun vegna póstsendingarinanar en í úrskurði Persónuverndar kom fram að móðirin mátti senda álitsgerðina áfram; að móðirin hafi ekki brotið lög og að póstsendingin hafi verið liður í að gæta lögmætra hagsmuna dóttur hennar.

Kennararnir voru ósáttir með póstsendinguna því þegar sálfræðingurinn sem vann álitsgerðina tók skýrslu af þeim var kennurum tjáð að fyllsta trúnaðar yrði gætt. Þeir töldu einnig að vegið væri að sér sem persónum og fagmönnum með að senda póstinn.

Í kvörtun kennaranna kom einnig fram að nokkrir kennarar sem hefðu aldrei kennt dóttur konunnar hefðu fengið álitsgerðina, auk eins kennara sem er hættur að kenna við skólann.

Lögmaður móðurinnar tiltók meðal annars að álitsgerðin hafi ekki verið merkt sérstaklega sem trúnaðarskjal en móðirin fékk hana frá skólastjóra skóla dóttur hennar. Í máli konunnar kom fram að hún teldist ekki ábyrgðaraðili að vinnslu persónuupplýsinganna heldur skólinn og skólastjórnendur.

Lögmaðurinn tók einnig fram að allir kennararnir hefðu fengið tækifæri að lesa sinn vitnisburð yfir og athuga hvort að rétt væri eftir þeim haft. Hún segist ekki hafa getað farið yfir álitsgerðina og strikað yfir það sem hún teldi vera persónuupplýsingar, sér í lagi vegna þess að skólayfirvöld hefðu ekki gert það þegar þau sendu skýrsluna til hennar.

Úrskurðarnefnd Persónuverndar tók undir þessi sjónarmið móðurinnar og telur hana hafa verið að gæta hagsmuna dóttur sinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×