Innlent

Fjórir gistu fangageymslur í Eyjum

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Áætlað er að um tíu þúsund manns hafi verið í Herjólfsdal í gærkvöldi.
Áætlað er að um tíu þúsund manns hafi verið í Herjólfsdal í gærkvöldi. Vísir/Jóhann K.
Nóttin var tíðindalítil víða um land við upphaf þessarar mestu ferðahelgi ársins. Nokkrir álagstímar mynduðust hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum en samkvæmt upplýsingum frá lögreglu komu engin alvarleg mál upp.

Fjórir gistu fangageymslur í Vestmannaeyjum vegna ýmissa mála. Samráðshópur kemur saman í Vestmannaeyjum í hádeginu þar sem staðan í löggæslumálum er metin en áætlað er að um tíu þúsund manns hafi verið í Herjólfsdal í gærkvöldi.

Í aðdraganda Þjóðhátíðar greindi lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum frá því að ekki verði greint frá hvort að möguleg kynferðisbrot hafi komið upp á hátíðinni fyrr en að henni lokinni.

Evrópumótið í Mýrarbolta hefst á Ísafirði í dag, en töluverður fjöldi er á staðnum og er veður þar með ágætum, skýjað og níu stiga hiti.

Sumarleikarnir fara fram á Akureyri um helgina, en lögregla fyrir norðan sagði að nóttin hefði verið mjög róleg og að fangageymslur hefðu verið tómar í nótt. Umferðin þar hefur gengið vel á heildina litið. Einn var tekinn fyrir of hraðan akstur í Hörgárdal en sá mældist á 153 kílómetra hraða. Þá var einn tekinn fyrir ölvunarakstur. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu er meira um fjölskyldufólk í bænum og sagði lögregla jafnframt að ekki væri meira í bænum núna heldur en um aðrar helgar í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×