Innlent

Fjórir fjallaskíðamenn björguðust úr snjóflóði

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Botnsdalur er fyrir botni Súgandafjarðar.
Botnsdalur er fyrir botni Súgandafjarðar. mynd/loftmyndir.is
Fjórir fjallaskíðamenn lentu í snjóflóði á áttunda tímanum í gærkvöldi í Botnsdal í botni Súgandafjarðar. Þrír mannanna bárust með flóðinu misjafnlega langt en einn þeirra lenti í jaðrinum á því. Enginn mannanna slasaðist alvarlega að sögn Hlyns Snorrasonar, yfirlögregluþjóns á Vestfjörðum.

„Það urðu engin alvarleg slys en þeir allir voru fluttir til skoðunar á sjúkrahúsið hér á Ísafirði. Einn þeirra var inni á sjúkrahúsinu í nótt en það voru engin beinbrot eða alvarlegir áverkar,“ segir Hlynur í samtali við Vísi.

Aðspurður segir að hann ekki hafi þurft að kalla út björgunarsveitir þar sem mennirnir björguðu sér sjálfir úr flóðinu og komu sér niður. Hlynur segir erfitt að segja til um  hversu stórt flóðið hafi verið en það hafi að minnsta kosti verið einhverjir tugir á breidd.

Samkvæmt vef Veðurstofunnar er nú töluverð hætta á snjóflóðum á norðanverðum Vestfjörðum. Þar segir að nokkuð hafi bætt í snjó bæði í norðlægum og suðlægum vindáttum:

„Í byrjun mánaðarins myndaðist mjög veikt lag af köntuðum kristöllum í snjónum sem hefur sést vel í gryfjum frá Bolungarvík og Ísafirði. Náttúruleg snjóflóð og snjóflóð af mannavöldum hafa fallið á þessu lagi. Gryfja frá því á föstudag sýndi veika lagið mjög greinilega og hefur brot á því lagi mikla tilhneigingu til að breiðast út sem er skýrt hættumerki fyrir fólk á ferðinni um fjalllendi. Á þriðjudag settu skíðamenn af stað flóð bæði í Hesteyrarfirði og í Súgandafirði,“ segir á vef Veðurstofunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×