Erlent

Fjórir bandarískir miðlar segja Trump vera lygara

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Donald Trump forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins.
Donald Trump forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins. vísir/epa
Fyrstu kappræðurnar milli forsetaframbjóðendanna Hillary Clinton og Donald Trump eru á mánudagskvöld en um helgina hafa fjórir fjölmiðlar vestan hafs birt greinar þar sem farið er yfir ósannyndi Trump. Undanfarið hefur Clinton haft forskot á Trump í skoðanakönnunum en talið er að kappræðurnar gætu ráðið úrslitum um hver taki við lyklunum að Hvíta Húsinu.

The New York Times reið á vaðið á laugardag með grein sinni A Week of Whoppers. Politico, The Washington Post og The Los Angeles Times birtu svipaðar greinar innan sólarhrings. Ritstjórar miðlanna segja að um tilviljun sé að ræða.

Politico greindi öll ummæli Trump og Clinton yfir fimm daga tímabil og sögðu niðurstöðuna vera augljósa. Þeir töldu Trump fara svo frjálslega með staðreyndir að samanburður við Clinton væri nánast hlægilegur.

Samkvæmt Politico sagði Trump að meðaltali ósatt með þriggja mínútna og fimmtán sekúndna millibili. Clinton sagði ósatt með tólf mínútna millibili. Alls töldu miðlarnir 87 rangfærslur, ýkjur eða ósannyndi frá Trump og átta frá Clinton. The New York Times taldi 31 „haugalygar“ og sagðist hafa sleppt tugum ummæla.

Allir miðlarnir fjórir töldu mun á þeim rangfærslum sem Clinton fer með í samanburði við Trump. The Washington Post sagði að þó að Clinton hafi átt sinn skerf af athugaverðum ummælum virðist Trump einfaldlega ekki taka mark á staðreyndum. Þá sögðu þeir að Trump reiði sig ítrekað á vafasamar heimildir og órökstuddar fullyrðingar.

Framboðsteymi Clinton tók fréttum af ósannindum Trump fagnandi, en þó er ekkert sem bendir til þess að starfsfólk hennar hafi komið við gerð fréttanna. Marty Baron, aðalritstjóri The Washington Post, sagði tímasetningu fréttanna vera tilviljun og að blaðið samstilli sig ekki við aðra miðla.


Tengdar fréttir

Ted Cruz lýsir yfir stuðningi við Donald Trump

Ted Cruz, sem sóttist eftir útnefningu sem forsetaefni Repúblikana en laut í lægra haldi fyrir Donald Trump, tilkynnti á Facebook-síðu sinni i kvöld að hann styðji fyrrverandi keppinaut sinn í kapphlaupinu að Hvíta húsinu og ætli að kjósa Trump sem forseta fremur en Hillary Clinton.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×