Viðskipti innlent

Fjórfalt meiri viðskipti með skuldabréf

Sæunn Gísladóttir skrifar
Magnús Harðarson, forstöðumaður viðskiptasviðs Kauphallarinnar.
Magnús Harðarson, forstöðumaður viðskiptasviðs Kauphallarinnar.
Gengi hlutabréfa í Kauphöll Íslands hækkaði verulega í gær í kjölfar þess að peningastefnunefnd tilkynnti að stýrivextir yrðu lækkaðir um 0,5 prósent. Viðskipti með skuldabréf voru fjórfalt meiri en venjulega. Forstöðumaður viðskiptasviðs Kauphallarinnar segir ástæðu þess vera að ávöxtunarkrafa til allra fjárfestinga lækki við þessa ákvörðun.

Úrvalsvísitalan hækkaði um 2,89 prósent í gær, en gengi hlutabréfa allra skráðra fyrirtækja á Aðallista Kauphallarinnar hækkaði. Mest var hækkunin á hlutabréfum Regins eða um 4,33 prósent í 156 milljóna króna viðskiptum. Mest voru viðskipti með bréf Icelandair Group. Hlutabréfin hækkuðu um 2,97 prósent í 653 milljóna króna viðskiptum.

Magnús Harðarson, forstöðumaður viðskiptasviðs Kauphallarinnar, segir tvo þætti vera að verki. „Í fyrsta lagi er ávöxtunarkrafa til allra fjárfestinga að lækka við þessa ákvörðun. Tryggingafélögin eiga svo í skuldabréfum sem eru þar að auki að hækka.“

Magnús segir gríðarlega mikla veltu hafa verið á skuldabréfum í gær. Veltan nam 23,8 milljörðum króna en dagsmeðaltalið á árinu hefur verið 5,8 milljarðar. Velta með hlutabréf var einnig mikil og nam 3,8 milljörðum, en dagsmeðaltal hennar hefur verið 2,2 milljarðar á árinu.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu






Fleiri fréttir

Sjá meira


×