Enski boltinn

Fjórði sigur Leicester í röð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jamie Vardy hefur farið mikinn í undanförnum leikjum Leicester.
Jamie Vardy hefur farið mikinn í undanförnum leikjum Leicester. vísir/getty
Sjö leikjum er lokið í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Leicester komst upp úr fallsæti með 0-1 sigri á Burnley í nýliðaslag á Turf Moor. Þetta var fjórði sigur Refanna í röð en ekki er langt síðan nánast var búið að dæma liðið niður um deild.

Jamie Vardy skoraði eina mark leiksins eftir klukkutíma en framherjinn hefur verið heitur að undanförnu og komið með beinum hætti að fimm mörkum í síðustu fimm leikjum Leicester.

Mínútu áður hafði Matthew Taylor, leikmaður Burnley, brennt af vítaspyrnu. Burnley er komið í botnsæti úrvalsdeildarinnar en liðið hefur aðeins fengið eitt stig í síðustu fimm leikjum sínum.

Hull vann mikilvægan 0-2 sigur á Crystal Palace á Selhurst Park. Dame N'Doye gerði bæði mörk Hull. Þetta var fyrsti sigur liðsins í deildinni síðan 21. febrúar.

Tígrarnir eru nú í 16. sæti, einu stigi frá fallsæti, en Palace siglir lygnan sjó í 11. sætinu.

Á Brittania Stadium gerðu Stoke og Sunderland 1-1 jafntefli en þetta var 15. jafntefli Sunderland í deildinni í vetur.

Gestirnir fengu draumabyrjun þegar Connor Wickham skoraði á upphafsmínútu leiksins eftir mistök hjá Asmir Begovic, markverði Stoke.

Charlie Adam jafnaði svo metin á 27. mínútu með sínu þriðja marki í síðustu fjórum leikjum.

Þá gerðu QPR og West Ham markalaust jafntefli á Loftus Road.

Úrslit dagsins:

Southampton 2-2 Tottenham

West Brom 0-0 Liverpool

Newcastle 2-3 Swansea

Stoke 1-1 Sunderland

Burnley 0-1 Leicester

Crystal Palace 0-2 Hull

QPR 0-0 West Ham




Fleiri fréttir

Sjá meira


×