Íslenski boltinn

Fjórði sigur KA í röð

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Steinþór sem grýtir hér innkasti inn á teig fyrir íslenska landsliðið skoraði tvö mörk í leiknum.
Steinþór sem grýtir hér innkasti inn á teig fyrir íslenska landsliðið skoraði tvö mörk í leiknum. vísir/afp
Norðanmenn í KA eru á miklu flugi í Lengjubikarnum en KA vann öruggan 3-0 sigur á Keflavík í 1. riðli A-deildar en eftir tap í fyrstu umferð hafa Akureyringar unnið fjóra leiki í röð.

Akureyringar sem eru nýliðar í Pepsi-deild karla á þessu ári byrjuðu leikinn af krafti og fengu tvö mörk strax á upphafsmínútunum frá Steinþóri Frey Þorsteinssyni sem kom nýlega heim úr atvinnumennsku.

Callum Williams bætti við marki fyrir KA og gerði í raun út um leikinn á lokasekúndum fyrri hálfleiks en hvorugu liði tókst að koma boltanum í netið í seinni hálfleik og lauk leiknum því með 3-0 sigri Akureyringa.

KA er því með tólf stig að fimm leikjum loknum en FH getur náð toppsætinu á ný á markatölu með stórsigri gegn Gróttu á Seltjarnarnesi á fimmtudaginn.

Akureyringum tókst með sigrinum að tryggja sig upp úr riðlinum en Keflvíkingar eru fallnir úr leik í ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×