Innlent

Fjórði meltingarlæknirinn segir upp á Landspítalanum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sunna Guðlaugsdóttir, meltingarsérfræðingur, segir álagið á Landspítalanum hafa aukist mikið, sérstaklega síðastliðið ár.
Sunna Guðlaugsdóttir, meltingarsérfræðingur, segir álagið á Landspítalanum hafa aukist mikið, sérstaklega síðastliðið ár. Vísir/GVA
Fjórir meltingarlæknar hafa nú sagt upp á Landspítalanum en Sunna Guðlaugsdóttir, meltingarsérfræðingur, sagði upp störfum í gær. Áður höfðu þrír meltingarlæknar til viðbótar sagt upp á spítalanum, þeir Kjartan Örvar Sigurðsson, Óttar Már Bergmann og Jón Örvar Kristinsson.

Sunna sem hefur starfað á Landspítalanum í tæpan áratug er í 100% stöðu á meltingardeild lyflækningasviðs. Að öllu óbreyttu tekur uppsögn hennar gildi þann 1. apríl næstkomandi. Aðspurð um ástæðu uppsagnar sinnar segir Sunna:

„Það er bara ástandið á spítalanum, sérstaklega síðastliðið ár. Það hefur bara týnst mjög úr hersveitum lækna og álagið hefur aukist í samræmi við það. Það er erfiðara að koma sjúklingum í góðan farveg vegna þess að netið er orðið grisjóttara.“

Sunna segir kjarabaráttu lækna einnig spila inn í þar sem það vanti sárlega nýliðun í læknastéttinni og hafi gert í mörg ár. Það séu mjög mörg stöðugildi á spítalanum sem hefur ekki tekist að manna í það og þar af leiðandi sé starfsaðstaðan mjög slæm. Hún segir stöðuna á Landspítalanum í raun grafalvarlega:

„Fólk hefur fundið fyrir auknu álagi í starfi í talsvert langan tíma og það hefur bara aukist í rauninni. Í þeim skilningi er maður svolítið svartsýnn því mér finnst þetta vera orðinn svo langur tími. Það er því mjög mikilvægt að semja og að kjörin leyfi það að fólk komi heim.“

Stjórnvöld skilningslaus og í algjörri afneitun

Í uppsagnarbréfi sínu segir Sunna meðal annars:

„Mér sýnist skilningsleysi stjórnvalda vera mjög alvarlegt og einkennast af algjörri afneitun. Læknar eru ekki að ræða brottför af landinu sem einhverskonar hótun til framtíðar. Fjölmargir læknar eru þegar farnir og ástandið er í rauninni löngu orðið óviðunandi. Eina leiðin til að fá unga lækna til að koma til landsins eftir sérnám er að greiða þeim samkeppnishæf laun og það er forsenda fyrir því að mögulegt verði að byggja hér aftur upp heilbrigðisþjónustu sem geti staðist samanburð við nágrannalönd okkar.

Læknar eru því að taka ábyrga afstöðu með launakröfum sínum og eru að reyna að afstýra stórslysi. Miðað við yfirlýsingar forystumanna landsins undanfarna daga virðist mér of langt í land með að hér verði þróuninni snúið við. Ég hef staðið vaktina á erfiðum tímum undanfarin áratug í ástandi sem hefur bara versnað smátt og smátt og get ekki hugsað mér að halda áfram á þennan hátt eins og staðan blasi við nú. Því miður, því Landspítalinn var alltaf svolítið fyrirheitna landið fyrir mér.“


Tengdar fréttir

Reynslubolti á spítalanum hendir inn handklæðinu

„Já, ég sagði upp í dag,“ segir Einar Páll í samtali við Vísi. Hann hefur starfað sem svæfingar- og gjörgæslulæknir á Landspítalanum í Fossvogi frá því árið 2001.

Nýtt útspil í læknadeilunni

Forystumenn ríkisstjórnarinnar funduðu með formanni samninganefndar ríkisins í læknadeilunni og sáttasemjara í dag. Samninganefndin metur nú næstu skref eftir að læknar komu með nýtt útspil á fundi í Karphúsinu í gær.

Tveir meltingarlæknar í viðbót segja upp

Sigurður Ólafsson, settur yfirlæknir meltingarlækninga á Landspítalanum, segist skilja vel að menn sjái sér ekki lengur fært að starfa á spítalanum.

Full alvara á bak við uppsögnina

Tveir svæfingalæknar sögðu upp störfum á Landspítalanum í dag. Ef fram fer sem horfir verður erfitt að manna stöður svæfingasérfræðinga á gjörgæslu spítalans.

Þjóðarsátt er óumflýjanleg

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, spurði stjórnarandstöðuna að því í vikunni hvort það væri sanngjörn krafa, í ljósi þess að almennur læknir á Landspítalanum væri með um 1,1 milljón á mánuði í heildarlaun og yfirlæknar með um 1.350 þúsund, að við þá upphæð bættist um það bil ein meðalmánaðarlaun fólks í landinu til að leysa læknaverkfallsdeiluna. Ekki fékkst svar við spurningunni á þinginu í gær enda snýst læknadeilan öll um hana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×