Handbolti

Fjórar þriggja barna mæður í bikarúrslit

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ágústa Edda, Sigurlaug, Kristín og Arna.
Ágústa Edda, Sigurlaug, Kristín og Arna. mynd/facebook
Valur komst í úrslitaleik Coca Cola-bikarsins sjötta árið í röð í gærkvöldi þegar liðið lagði Hauka, 22-20, í undanúrslitum í Laugardalshöll.

Í liði Vals voru fjórar þrautreyndar kempur, en Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, bætti tveimur reynslumiklum leikmönnum við hópinn fyrir úrslitahelgina.

Þær Kristín Guðmundsdóttir (36), Ágústa Edda Björnsdóttir (37), Arna Grímsdóttir (35) og Sigurlaug Rúnarsdóttir (36) spiluðu allar leikinn fyrir Val sem getur nú unnið bikarinn fjórða árið í röð.

Kristín var langbest og skoraði ellefu mörk, en Sigurlaug skoraði fjögur mörk og stýrði leik Valsliðsins. Ágústa Edda Björnsdóttir skilaði góðum mínútum og skoraði eitt mark.

Facebook-síða Vals birti mynd af þessum fjórum afrekskonum eftir leikinn og skrifaði: „Þessar ungu stelpur eiga samanlagt 12 börn eða þrjú börn hver. Framtíðin er sannarlega björt hjá Val.“

Úrslitaleikurinn fer fram á morgun klukkan 13.30 en þar mætir Valur toppliði Gróttu sem vann ÍBV í gærkvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×