Viðskipti innlent

Fjórar jafningjaleigur á Íslandi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sölvi Melax
Sölvi Melax
Fjórir aðilar eru á markaðnum sem hafa milligöngu um leigu á bílum í eigu einstaklinga til ferðamanna. Hugmyndin er fengin erlendis frá en hún minnir nokkuð á leigusíður eins og Airbnb sem hefur milligöngu um leigu íbúðarhúsnæðis.

Þegar hefur verið greint frá vefsíðunni CarRenters.is. VikingCars.is er önnur sambærileg síðan en Sölvi Melax heldur starfsemi úti á þeirri vefsíðu. Sölvi segir að starfsemin hafi farið vel af stað. „Þetta var mjög fróðlegt til að byrja með en þetta var bras. En þetta hefur rúllað vel af stað. Sá bíll sem var mest leigður var leigður 26 daga í ágúst af fyrstu 28 dögunum. Þannig að það er gríðarlega mikill markaður fyrir þetta. Og við leggjum áherslu á að enginn bíll sé skráður á síðuna nema að tryggingamálin séu algjörlega í lagi,“ segir Sölvi í samtali við Fréttablaðið.

Sölvi segir að helsti hagur sem leigusalar hafi af jafningjaleigunni sé sá að þeir geti með þessu aukið ráðstöfunartekjur og aukið þar með líkur sínar á að geta keypt nýrri bíl. Þeir geta þá leigt bílinn út þegar eftirspurnin er hvað mest og notað nýja bílinn á öðrum tímum. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×