Sport

Fjölskyldan átti hug Andy Murray á fyrsta deginum sem sá besti í heimi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bræðurnir Andy Murray og Jamie Murray.
Bræðurnir Andy Murray og Jamie Murray. Vísir/Getty
Skoski tennisleikarinn Andy Murray er nú sá besti í heimi samkvæmt styrkleikalista Alþjóðatennissambandsins en þetta er í fyrsta sinn sem hann kemst á topp heimslistans.

Styrkleikalistinn var gefinn út í dag og Andy Murray varð þá fyrsti breski maðurinn frá stofnun heimslistans árið 1973 sem nær efsta sætinu. Þetta var því mjög stór stund fyrir bæði hann og tennisíþróttina í Bretlandi.

Andy Murray er 26. tennisspilarinn sem kemst upp í efsta sæti heimslistans á þessum rúmu fjórum áratugum. Hann hefur spilað vel á síðustu misserum og komist í þrjá úrslitaleiki á risamótum ársins auk þess að vinna Ólympíugullið á öðrum leikunum í röð.

Murray vann Wimbledon-mótið en tapaði í úrslitaleik á bæði opna ástralska og opna franska.

Það kom ekki Andy Murray kannski ekki mikið á óvart að hann væri kominn á toppinn því það varð ljóst eftir árangur hans á Paribas Masters-mótinu sem lauk um helgina. Þar vann Murray Bandaríkjamanninn John Isner í úrslitaleik.  

Serbinn Novak Djokovic missti þá toppsætið á heimslistanum sem hann hafði haldið samfellt frá 7. júlí 2014 og alls í 377 vikur í þremur skorpum frá 2011.

„Gærdagurinn var frábær. Dagurinn í dag hefur aftur á móti bara verið venjulegur dagur heima með fjölskyldunni,“ sagði Andy Murray.

„Þegar ég er inn á vellinum þá er ég ekkert að hugsa um stöðuna inn á heimslistanum,“ bætti Murray við en framundan er ATP úrslitakeppnin milli bestu tennisleikara heims. Þar mætir hann í fyrsta sinn til leiks með pressuna að vera sá besti í heimi.  

Jamie Murray, bróðir Andy Murray, fagnaði árangri bróður síns á twitter með því að segja að tuttugu ára bið og stanslaus vinna hefði skilaði Andy á toppinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×