Innlent

Fjölmiðlar heimsins fjalla meira um karla en konur

Á myndinni eru nemendur og kennari í blaða- og fréttamennsku og kynjafræði við HÍ. Frá vinstri: Ingibjörg Rósa Björnsdóttir, Hlíf Þorgeirsdóttir, Valgerður Jóhannsdóttir, Eygló Árnadóttir og Anna Lilja Þórisdóttir.
Á myndinni eru nemendur og kennari í blaða- og fréttamennsku og kynjafræði við HÍ. Frá vinstri: Ingibjörg Rósa Björnsdóttir, Hlíf Þorgeirsdóttir, Valgerður Jóhannsdóttir, Eygló Árnadóttir og Anna Lilja Þórisdóttir.
Konur eru 24 prósent þeirra sem fjallað er um eða talað við í fréttum heimspressunnar, en karlar 76 prósent. Hér á landi er hlutfall kvenna nokkru hærra en annars staðar, eða 28 prósent. Á hinum Norðurlöndunum er hlutfallið hinsvegar á bilinu 30-33 prósent. Niðurstöðurnar verða kynntar nánar á Þjóðarspeglinum 2010: Ráðstefnu í félagsvísindum XI, sem haldin verður föstudaginn 29. október 2010 við Háskóla Íslands.

Þetta kemur fram í nýrri alþjóðlegri rannsókn, Global Media Monitoring Project (GMMP) sem kynnt var í dag. Í rannsókninni voru helstu fréttamiðlar i 108 löndum vaktaðir þann 10. nóvember 2009 og meðal annars kannað hversu oft var talað við eða fjallað um konur, í hvers konar fréttum og í hvers konar hlutverkum. „GMMP er umfangsmesta og langlífasta rannsókn á hlut karla og kvenna i fréttum og hefur verið gerð á 5 ára fresti síðan 1995. Ísland tók nú fullan þátt í fyrsta skipti. Greindar fréttir í Ríkisútvarpinu, Stöð 2, Bylgjunni, Morgunblaðinu, Fréttablaðinu," segir í tilkynningu.

Vefmiðlar voru hafðir með í fyrsta sinn í þetta skiptið og tóku 16 lönd þátt í því, þar á meðal Ísland en hér voru greindar fréttar í mbl.is, visir.is, pressan.is, dv.is, amx.is. „Niðurstöður hvað vefmiðla varðar voru hins vegar ekki sundurliðaðar á sama hátt og fyrir hefðbundna miðla og eru ekki með í samantektinni hér fyrir neðan," segir ennfremur.



Helstu niðurstöður hvað varðar prentmiðlar, úrtvarp og sjónvarp fara hér á eftir:



• Konur eru 28% þeirra sem talað er við eða fjallað um fréttum hér á landi, en karlar 72%, en í heimspressunni eru samsvarandi hlutföll að jafnaði 24% konur og 76% karlar. Konur koma hins vegar heldur minna við sögu í fréttum hér landi en annars staðar á Norðurlöndum þar sem þær eru 30-33% þeirra sem rætt er við eða fjallað um.

• Þriðjungur (33%) fréttanna í íslensku fjölmiðlunum eru sagðar eða skrifaðar af konum

og 67% af körlum. Fréttakonur flytja samkvæmt því hlutfallslega færri fréttir hér á landi en að jafnaði í þeim 108 löndum sem könnunin náði til. Þar eru samsvarandi hlutföll 37% konur og 63% karlar. Í Svíþjóð er rétt rúmur helmingur fréttanna eftir fréttakonur, í Finnlandi 40% og 30% í Noregi og Danmörku.

• Fréttakonur á íslenskum fjölmiðlum eru ekki líklegri en fréttakarlar til að tala við eða fjalla um konur. Í 23% frétta eftir konur var talað við eða fjallað um konur og í 22% frétta eftir karla. Í fjölmiðlum landanna 108 eru fréttakonur hins vegar að jafnaði líklegri til að tala við eða fjalla um konur. Þar eru samsvarandi hlutföll 28% og 22%.

• Tæp 40% íslensku fréttanna voru taldar styrkja hefðbundnar staðalmyndir kynjanna, 13% ögra staðalmyndum en tæpur helmingur var hvorki talin styrkja né ögra staðalmyndum.

• GMMP rannsóknir hafa bent til þess að konur væru fremur umfjöllunarefni eða viðmælendur í fréttum um t.d. dægurmál, heilbrigðis- eða félagsmál, en síður í því sem gjarnan eru kallaðar harðar fréttir, eins og um pólitík, efnahagsmál og glæpi og afbrot. Ekki fundust skýrar vísbendingar um það í íslensku fréttunum. Konur voru t.d. viðmælendur í 33% frétta um afbrot og ofbeldi og í 29% frétta um pólitík eða í nokkru fleiri fréttum en ætla mætti út frá heildarfjölda þeirra í fréttum almennt. Hafa verður þann fyrirvara á að fréttaflokkarnir eru grófir og verið getur að önnur kynjaskipting komi í ljós ef fréttirnar eru sundurgreindar nánar.

• Ekki var heldur að sjá að fréttakonur hér á landi fjölluðu síður um „hörð" mál en fréttakarlar. Þannig segja/skrifa fréttakonur 4 af hverjum 10 fréttum um efnahagsmál þótt þær séu mun færri en karlarnir. Hér verður hins vegar einnig að setja þann fyrirvara að fréttaflokkarnir eru grófir og verið getur að önnur kynjaskipting komi í ljós ef fréttirnar eru sundurgreindar nánar.



Helstu niðurstöður hvað varðar vefmiðla eru þessar:

• Hlutur kvenna og karla í veffréttum er mjög áþekkur því sem gerist í hefðbundnum miðlum. Tæpur fjórðungur (23%) þeirra sem tala er við eða fjallað um í veffréttum er konur og 77% karlar.

• Fréttakonur skrifuðu 36% vefréttanna, karlar 64%.

• Aðeins 4% vefrétta voru taldar ögra eða ganga gegn hefðbundnum staðalmyndum kynjanna, 42% styrktu staðalmyndir og 54% gerðu hvorugt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×