Innlent

Fjölmiðlanefnd kallar eftir upplýsingum um eignarhald

Samúel Karl Ólason skrifar
Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar.
Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar. Vísir/Valgarð
Fjölmiðlanefnd hefur ákveðið að kalla á ný eftir upplýsingum um starfsemi og eignarhald fjölmiðla. Þessi ákvörðun var tekin í ljósi þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað um málefni fjölmiðla og hræringa á fjölmiðlamarkaði.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjölmiðlanefnd.

„Bréf þess efnis verða send fjölmiðlaveitum á næstu dögum. Í einhverjum tilvikum hefur skort á nákvæmni og uppfærslu slíkra upplýsinga en kveðið er á um í lögum um fjölmiðla nr. 38/2011 að upplýsingaskylda hvíli á fjölmiðlaveitunum,“ segir í tilkynningunni.

Einnig mun nefndin óska eftir upplýsingum um ritstjórnarlegt sjálfstæði og hvort breytingar hafi orðið á þeim reglum.

„Fjölmiðlanefnd bendir á að reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði þeirra starfsmanna sem sinna fréttum og fréttatengdu efni ber að endurskoða árlega, tilkynna fjölmiðlanefnd þegar endurskoðun hefur farið fram og senda nefndinni nýja útgáfu af reglunum til staðfestingar hafi breytingar verið gerðar.“

Nefndin vekur athygli á því að verði eigendaskipti að fjölmiðlaveitu ber seljanda og kaupanda að tilkynna fjölmiðlanefnd um eigendaskiptin innan tveggja virkra daga frá gerð kaupsamnings. Einnig skuli stjórn félags sem stundi fjölmiðlun senda fjölmiðlanefnd hlutaskrá félagsins innan fjögurra virkra daga frá aðalfundi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×