Erlent

Fjölmenn minningarstund á Trafalgar-torgi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Fjölmenni var við minningarstundina.
Fjölmenni var við minningarstundina. Vísir/Getty
Þúsundir komu saman á Trafalgar-torgi í London í kvöld til þess að minnast fórnarlamba árásarinnar við breska þinghúsið í gær.

Í fjarska mátti heyra nið lögregluþyrlna og gríðarleg öryggisgæsla var við torgið á meðan minningarathöfnin fór fram.

Í frétt BBC segir að orðið samstaða hafi verið á allra vörum en fjórir létust, auk árásarmannsins, og um 40 slösuðust í árásinni.

Kveikt var á kertum við National Gallery listasafnið og lögð á þrepin sem liggja að safninu. Fréttamaður BBC sem var á staðnum segir að allir þeir viðmælendur sem hún talaði við á torginu hafi verið sammála um að þeir ætli sér ekki að láta hryðjuverkamenn hafa truflandi áhrif á daglegt líf sitt.

Árásin er rannsökuð sem hryðjuverk og þrátt fyrir að talið sé að árásarmaðurinn, Breti að nafni Khalid Masood, hafi verið einn af verki hafa hryðjuverkasamtökin ISIS lýst yfir ábyrgð vegna árásarinnar.

Sadiq Khan, borgarstjóri London, tók til máls og sagði að Lundunarbúar myndu ekki láta hryðjuverk hræða sig. Haldin var einnar mínútu þögn á torginu til minningar um fórnarlömbin.

Þeir sem dóu og særðust komu frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Frakklandi, Grikklandi, Írlandi, Ítalíu, Kína, Póllandi, Rúmeníu, Spáni, Suður-Kóreu og Þýskalandi.

Vísir/Getty
Vísir/Getty
Vísir/Getty
Vísir/Getty
Vísir/Getty
Vísir/Getty
Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×