Innlent

Fjölmargir látnir eftir sprengjuárás í Nígeríu

Atli Ísleifsson skrifar
Sprengjuárásir hafa verið tíðar í norðurhluta Nígeríu síðustu mánuði. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Sprengjuárásir hafa verið tíðar í norðurhluta Nígeríu síðustu mánuði. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Vísir/AP
Fjölmargir létust eða særðust í sprengjuárás sem varð fyrir utan eina af stærstu moskum nígerísku borgarinnar Kano í dag.

Mikið fjölmenni var við moskuna enda fjölmargir á leið til föstudagsbæna. Lík fórnarlamba og særðir hafa verið flutt á nálæg sjúkrahús.

Í frétt BBC segir að sprengingarnar hafi verið þrjár og að mikill reykmökkur hafi stigið til himins sem sást víðs vegar um borgina.

Um tvær milljónir manna búa í borginni Kano sem er í norðurhluta Nígeríu.

Moskan sem um ræðir er nálægt höll emírsins í Kano sem stýrir jafnan bænahaldi. Emírinn, Muhammad Sanusi, er sem stendur í Sádi-Arabíu.

Sjónarvottur segist í samtali við BBC hafa séð fimmtíu lík hið minnsta þó að sú tala hafi ekki fengist staðfest. Þá hafa fréttir borist af því að hópur manna hafi skotið úr byssum í kjölfar sprenginganna.

Liðsmenn hryðjuverkasamtakanna Boko Haram hafa áður ráðist á borgina á undanförnum fimm árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×