Innlent

Fjölmargar íbúðir í eigu fjármögnunarfyrirtækja standa auðar

Þrettán hundruð og sextíu íbúðir í eigu fjármögnunarfyrirtækja standa auðar á Íslandi. Sjö hundruð og fimmtíu eru leigðar út en alls eiga fjármögnunarfyrirtækin meira en tvö þúsund og eitt hundrað íbúðir um allt land.

Frá því í október 2008 hafa fjármála- og fjármögnunarfyrirtækin, eða félög sem stofnuð voru utan um eignir þeirra, leyst til sín húsnæði margra þeirra sem ekki gátu staðið í skilum. Margar eignir hafa verið seldar, sumar eignir eru í útleigu til gerðarþola eða leigjenda þeirra, en aðrar eignir standa auðar.

Fréttastofa óskaði eftir upplýsingum um fjölda íbúðarhúsnæða í eigu fjármögnunarfyrirtækjana og í dag er staðan þessi:

Arion banki á sjötíu og sex íbúðir, Íslandsbanki á hundrað sextíu og sjö íbúðir, Landsbankinn á tvö hundruð og þrjátíu íbúðir, Drómi, sem er félag sem stofnað var utan um eignir Spron og frjálsa fjárfestingabankans, á tvö hundruð og fimmtíu íbúðir en íbúðalánasjóður á þrettán hundruð áttatíu og fimm íbúðir.

Í dag eiga því fjármála- og fjármögnunarfyrirtækin rúmlega tvö þúsund og eitt hundrað íbúðarhúsnæði á Íslandi. Hluti þessara fasteigna eru hins vegar óíbúðarhæf húsnæði sem eru einungis fokheld eða á byggingarstigi. Hlutfall þeirra fékkst ekki uppgefið.

Fyrirtækin hafa hins vegar lánað út hluta af þeim íbúðum sem þau hafa leyst til sín til gerðarþola eða þeirra leigjenda sem voru í íbúðinni en samtals eru tæplega sjö hundruð og fimmtíu leigusamningar í gildi í dag.

Eftir standa því þrettán hundruð og sextíu íbúðir auðar eða á byggingarstigi í eigu fjármála- og fjármögnunarfyrirtækjana á Íslandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×