Innlent

Fjölluðu oft um tækifæri Íslands vegna hlýnunar

Kristján Már Unnarsson skrifar
Úr opinberri heimsókn forsætisráðherra til Kína í apríl í fyrra. Fríverslunarsamningur ríkjanna undirritaður.
Úr opinberri heimsókn forsætisráðherra til Kína í apríl í fyrra. Fríverslunarsamningur ríkjanna undirritaður.
Forystumenn síðustu ríkisstjórnar fjölluðu oft í ræðu og riti um tækifærin sem Ísland hefði vegna hlýnunar loftlags á Norðurslóðum. Þar fór fremstur í flokki utanríkisráðherrann Össur Skarphéðinsson sem sagði mestu viðskiptatækifæri Íslendinga á þessari öld tengjast heimskautasvæðunum. 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra var harðlega gagnrýndur í síðustu viku fyrir að benda á að loftlagsbreytingar fælu í sér mikil tækifæri fyrir Ísland. Forveri hans í embætti, Jóhanna Sigurðardóttir, ræddi einnig um slík tækifæri á síðasta kjörtímabili. Þannig má lesa í fréttatilkynningu um opinbera heimsókn Jóhönnu til Kína í apríl í fyrra að rætt hafi verið um aukið samstarf á Norðurslóðum „meðal annars vegna nýrra tækifæra og breytinga á siglingaleiðum“. 

Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi atvinnuvegaráðherra, lét heldur ekki sitt eftir liggja. Á ráðstefnu í Tromsö í janúar í fyrra, Arctic Frontiers, kvaðst hann sjá fyrir sér að Ísland myndi gegna vaxandi hlutverki í að þjónusta það sem hann kallaði „orkuþríhyrninginn“, það er íslenska svæðið suður af Jan Mayen, norska hluta þess svæðis og olíuleitarsvæði undan ströndum Austur-Grænlands. Steingrímur tók fram að uppfylla yrði strangar öryggis- og mengunarkröfur áður en hugsanleg olíuvinnsla hæfist.

Í tíð síðustu ríkisstjórnar var raunar gefin út heil skýrsla „Ísland á norðurslóðum“ sem Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra fylgdi úr hlaði með þessum orðum:  „Nauðsynlegt er að hefja nú þegar kynningu á möguleikum Íslands í þessu sambandi því að ella kunna þau tækifæri sem í þeim felast að renna okkur úr greipum.“


Tengdar fréttir

Kínverjar vilja fjárfesta í umskipunarhöfn á Íslandi

Kínverjar hafa rætt við íslensk stjórnvöld um að byggja hafnarmannvirki á Íslandi vegna siglinga yfir Norðurskautið. Þetta upplýsir Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra en á ráðstefnu í dag sagði hann mestu viðskiptatækifæri Íslendinga á þessari öld tengjast heimskautasvæðunum. Salurinn á Grand hótel Reykjavík var þéttsetinn á ráðstefnu sem utanríkisráðuneytið, Samtök atvinnulífsins og Íslandsstofa efndu til um sóknarfæri á norðurslóðum.

Steingrímur varði olíuleit Íslendinga í Tromsö

Sjávarútvegsráðherra Noregs segir að þar í landi hafi það sýnt sig að fiskveiðar og olíuleit geti vel farið saman. Á Norðurslóðaráðstefnunni í Tromsö, sem lauk í gær, varði Steingrímur J. Sigfússon atvinnuvegaráðherra þá ákvörðun Íslendinga að hefja olíuleit með því að aðrar þjóðir við Norður-Atlantshaf gerðu slíkt hið sama. Í ræðu um olíuáform Íslands sagði Steingrímur að fyrst yrði að tryggja strangar varnir gegn mengun og slysum áður en nokkur olíuvinnsla yrði hugsanlega leyfð. Fréttamönnum sagði hann síðan að það yrði stór ákvörðun ef Ísland eitt ríkja ætlaði ekki að leyfa olíuleit.

Ummæli Sigmundar Davíðs komin í heimspressuna

Vefmiðillinn The Raw Story, sem helgar sig fréttum af stjórnmálum á heimsvísu, greinir frá því að forsætisráðherra Ísland, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, telji að loftslagsbreytingar bjóði upp á stórkostleg tækifæri fyrir Ísland í framtíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×