Viðskipti innlent

Fjölgun ferðamanna að stefna í óefni

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Greiningardeild Íslandsbanka spáir því í nýrri skýrslu um ferðaþjónustuna að um 2,3 milljónir ferðamanna muni heimsækja Ísland á þessu ári.
Greiningardeild Íslandsbanka spáir því í nýrri skýrslu um ferðaþjónustuna að um 2,3 milljónir ferðamanna muni heimsækja Ísland á þessu ári. Vísir/Pjetur
Fjölgun ferðamanna stefnir í óefni og ef fram heldur sem horfir verður vöxturinn ósjálfbær. Þetta segir formaður Samtaka ferðaþjónustunnar. Bregðast þurfi við, meðal annars með því að skoða aðgangsstýringar.

Greiningardeild Íslandsbanka spáir því í nýrri skýrslu um ferðaþjónustuna að um 2,3 milljónir ferðamanna muni heimsækja Ísland á þessu ári sem nemur fjölgun um þrjátíu prósent frá síðasta ári. Grímur Sæmundsen, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, var gestur Kristjáns Kristjánssonar í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Grímur sagði þennan mikla vöxt stefna í óefni.

„Ef fram heldur sem horfir, þá erum við að horfa á ósjálfbæran vöxt hvað hagsmuni greinarinnar og þjóðarinnar varðar til framtíðar,“ segir Grímur. „Við erum að verða vitni að því að það hriktir í samfélaginu, það hriktir í vegakerfinu og það er gríðarleg spenna og vöntun á húsnæði á húsnæðismarkaði.“

Grímur Sæmundsen, forstjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.Vísir/GVA
Þá sé ferðaþjónustan fórnarlamb eigin velgengni vegna mikillar styrkingar krónunnar.

„Sem er kannski langerfiðasta verkefnið sem við er að glíma, vegna þess að afkoma í greininni hefur hríðversnað þrátt fyrir fjölgun ferðamanna,“ segir Grímur. „Það er kannski staðreynd sem menn átta sig ekki á. Það er ekki líflegt samband á milli fjölda ferðamanna og afkomu í greininni. Núna á undanförnu ári hefur rekstrarumhverfi greinarinnar versnað um milli 25 og þrjátíu prósent ef þú vegur saman gríðarlegar launakostnaðarhækkanir og styrkingu gengisins.“

Grímur segir að bregðast þurfi við, meðal annars með því að skoða aðgangsstýringar. „Því það liggur auðvitað alveg fyrir að vöxtur greinarinnar í fjölda ferðamanna undanfarin þrjú ár er fordæmalaus í alþjóðlegu samhengi.“


Tengdar fréttir

610 milljónum króna úthlutað vegna ferðamannastaða

Hæsti styrkurinn í þessari úthlutun er að upphæð 60 milljónir króna til verkefna í Landmannalaugum. Næsthæsti styrkurinn nemur 31,2 milljónum vegna verkefna í Rauðfeldargjá á Snæfellsnesi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×