Innlent

Fjöldi Norðmanna hjálpuðu einstæðum íslenskum föður

Samúel Karl Ólason skrifar
"Það er mjög gott að fá alla þessa hjálp og ég vil sýna að ég kunni að meta það.“
"Það er mjög gott að fá alla þessa hjálp og ég vil sýna að ég kunni að meta það.“ Vísir/Getty
Fjöldi Norðmanna kom Íslendingnum Hagbarði Valssyni til hjálpar nýverið eftir að vinkona hans auglýsti eftir húsgögnum á norskri heimasíðu. Hagbarður á fjögur börn en eiginkona hans lést í fyrra. Hagbarður og fjölskylda hans fengu fjögurra herbergja einbýlishús frá sveitarfélaginu til að búa í, en þá vantaði húsgögn til að fylla þetta stóra hús.

Kona Hagbarðs varð bráðkvödd í júní í fyrra. Þá var hún komin sjö mánuði á leið. Gerður var bráðakeisaraskurður og lifði stúlkan af. Rætt var við hann í Ísland í dag í fyrra.



Vinkona Hagbarðs, Elisabeth Waal Priest Hagen, auglýsti eftir húsgögnum á síðunni finn.no. Viðtökurnar voru gríðarlegar og settu 300 manns sig í samband við Elisabeth og buðu þau fjölskyldunni allt frá sófa, föt, gjafabréf og kökur.

„Viðbrögðin hafa verið yfirþyrmandi,“ segir Elisabeth við NRK. „Fólk hefur hringt og sent skilaboð. Sumir hafa viljað gefa húsgögn, en aðrir hafa gefið gjafabréf frá IKEA. Sumir hafa sent blóm og aðrir hafa spurt á hvaða vegu þeir geta hjálpað til.“

Hagbarður sjálfur segist vera þakklátur með hjálpina.

„Saga okkar hefur vakið upp tilfinningar hjá fólki. Ég er mjög þakklátur fyrir þetta allt saman,“ segir Hagbarður. „Mig grunaði að margir vildu hjálpa okkur í fyrra. Það er mjög gott að fá alla þessa hjálp og ég vil sýna að ég kunni að meta það.“

Á vef NRK segir að íslenskir burðamenn hafi staðið í röðum við að hjálpa Hagbarði við flutningana. Enginn þeirra var beðinn um að hjálpa, en mikill fjöldi kom þó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×