Menning

Fjölbreytt verk sem spanna hálfa öld

Ein af myndum Hafsteins á sýningunni í Smiðjunni.
Ein af myndum Hafsteins á sýningunni í Smiðjunni.
Listmálarinn Hafsteinn Austmann opnaði sýningu með verkum sínum í Smiðjunni listhúsi að Ármúla 36 í gær, föstudag. Þar eru sýndar vatnslitamyndir eftir Hafstein, en hann er með þekktustu myndlistarmönnum landsins.

,,Þetta eru verk frá ýmsum tímum, allt frá 1957-2012 og spanna því hálfa öld, og því fjölbreytt flóra. Mér hefur alltaf fundist sérstaklega gaman að mála með vatnslitum,“ segir listamaðurinn, sem er rúmlega áttræður að aldri.

Til þessa hefur Hafsteinn haldið rúmlega 30 einkasýningar og tekið þátt í miklum fjölda samsýninga víða um heim. Sömuleiðis eru verk Hafsteins að finna í öllum helstu listasöfnum Norðurlanda og í Norræna fjárfestingarbankanum. Verk hans hafa enn fremur hlotið ýmsar viðurkenningar, meðal annars alþjóðlegu Windsor & Newton-verðlaunin fyrir vatnslitamyndir. Hafsteinn hefur einnig hlotið tvenn verðlaun fyrir útilistaverk og gert keramikmynd fyrir Borgarspítalann.

„Hafsteinn Austmann er einn af bestu listmálurum sinnar kynslóðar. Verk eftir hann vekja ávallt mikla athygli og þykja mjög eftirsótt,“ segir Bjarni Sigurðsson, eigandi Smiðjunnar listhúss. Sýningin er opin til 10. nóvember næstkomandi. – mg



Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 29. október.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×