Menning

Fjölbreytnin er hluti af okkar sjálfsþurftarbúskap

Magnús Guðmundsson skrifar
Bjarni Harðarson innan um brot af öllum þeim fjölda bóka sem er að finna í Bókakaffinu á Selfossi sem er tíu ára um þessar mundir.
Bjarni Harðarson innan um brot af öllum þeim fjölda bóka sem er að finna í Bókakaffinu á Selfossi sem er tíu ára um þessar mundir. Visir/Stefán
Bókakaffið á Selfossi varð tíu ára í haust,“ segir Bjarni Harðarson, útgefandi og bókakaffihúsamaður, á Selfossi aðspurður hversu lengi Bókakaffið sé nú búið að starfa. „En við erum búin að vera heldur lengur með bókaútgáfu því þetta er sama fyrirtæki og var Sunnlenska fréttablaðið á meðan ég átti það. Við byrjuðum að gefa út bækur árið 2001 og þá reyndar í svona frekar smáum stíl.“

Alls konar fastagestir

Bjarni segir að Bókakaffið hafi gengið vel á þessum tíu árum. „Auðvitað voru fyrstu árin soldið strembin en í raun og veru er það konan mín sem sér miklu meira um reksturinn á þessu en ég. Og það hefur stundum alveg reynt á að láta enda ná saman en það er nú orðið afslappaðra núna.

Við erum komin með hóp af skemmtilegum fastagestum, bæði heimafólk af Selfossi og svo ekki minna gestir sem eru hérna úr sumarbústöðunum í sveitinni í kring. Svo eru það líka, sem okkur finnst mjög gaman, útlendir fastagestir sem koma á hverju ári til Íslands og sleppa ekki Bókakaffinu. Í hausatalningu er alveg helmingur þeirra sem hingað koma útlendingar en viðskiptin eru þó einkum við Íslendinga en þeir kaupa meira af bókum en hinir eru meira í kaffinu. Við reynum þó alltaf að vera með bækur á erlendum tungumálum og þá ekki aðeins þessar hefðbundnu túristabækur heldur þýddar íslenskar bókmenntir, miðaldabókmenntirnar, Njálu og eitthvað af Laxness og sitthvað fleira. Þetta er ekkert mikið úrval en samt alveg þannig að það muni um það.“

Nýtt og gamalt

Sunnlenska bókakaffið býr yfir þeirri sérstöðu á meðal bókaverslana á Íslandi að þar er bæði að finna nýjar og notaðar bækur. Bjarni tekur undir að þetta sé líkast til eina bókabúðin á landinu sem er að blanda saman nýju og notuðu. „Já, svona í þessum mæli. Það hefur oft verið ein og ein hilla eða skápur í bókabúðum í Reykjavík en þetta er mjög algeng blanda víða erlendis. Ég sá þetta til að mynda mikið í Danmörku fyrir nokkrum árum þegar ég var þar og þetta er ekkert óþekkt blanda. Enda á þetta í rauninni mjög vel saman vegna þess að bækur eru orðnar þannig neysluvara að þær eru ekki til nýjar á markaði nema kannski í fimm til tíu ár frá prentun. Eftir það eru það í rauninni bara fornbókabúðirnar sem geta útvegað fólki það sem það er að leita að í mörgum tilvikum. En líftími bóka er reyndar mjög misjafn eftir efni þeirra.“

Bjarni segir að útgáfan Sæmundur sé í raun stærsti hluti starfseminnar þó að Bókakaffið sé kannski að vissu leyti sýnilegra. En það sem maður tekur sérstaklega eftir þegar útgáfulisti Sæmundar er skoðaður er hversu fjölbreyttir titlar koma út á vegum forlagsins. „Þetta er einmitt markmið og meðvituð stefna. Vegna þess að við erum að reka búð líka og þá er mjög gott að vera ekkert að binda sig við að gefa bara út ævisögur eða þjóðlegan fróðleik eða skáldskap. Þetta er því hluti af okkar sjálfsþurftarbúskap í verslunarrekstri. Við viljum gæta þess að ákveðið hlutfall af því sem við erum að selja hérna séu bækur sem við framleiðum sjálf. Gömlu bækurnar eru líka á ákveðinn hátt eigin framleiðsluvara vegna þess að maður býr þann lager til með því að fara í gegnum mjög stór söfn og tína til og svona. En það munar mjög miklu að vera með gömlu bækurnar og það sem við gefum út sjálf því þá hefur búðin úr meiru að moða en aðeins smásölunni og það er allur svona búðarekstur mjög erfiður.“

Bókabærinn Selfoss

En skyldi Bókaforlagið Sæmundur njóta sambandsins við Sunnlendinga þegar kemur að því að finna og velja verk til útgáfu? „Auðvitað er töluvert um það að Sunnlendingar leiti til okkar með verkefni. En við gefum út töluvert af efni sem á rætur sínar hér án þess að við séum að einskorða okkur við það. Við eigum í miklu og góðu sambandi við okkar nærumhverfi og svo erum við reyndar ekki eina forlagið hérna í plássinu. Ég er nú tíðum að minna á að það eru tvö bókaforlög á Selfossi. Hitt er skemmtilegt forlag sem er að gefa út Litlu barnabækurnar sem margir kannast nú við og hafa lesið en þær eru líka gefnar út hér á Selfossi. Þannig að Selfoss er bókaútgáfubær.

En Selfoss er líka bókabær því við gengum í það fyrir tveimur árum að fara í samtök alþjóðlegra bókabæja sem eru samtök lítilla bæja þar sem er lögð áhersla á bækur, útgáfu og annað eða bóka þetta og bóka hitt eins og þar stendur.“

Annað kvöld ætlar Bókaútgáfan Sæmundur að halda til höfuðborgarinnar að hætti jólasveinanna og mála bæinn rauðan eins og Bjarni segir. „Já, við ætlum að byrja með opið hús í Gunnarshúsi á Dyngjuvegi á föstudagskvöldið klukkan átján. Við ætlum að bjóða fólki að spjalla við okkur og skoða bækurnar og það verða einhverjar smá veitingar og upplestrar þannig að allir ættu að geta haft gaman af og við vonumst auðvitað eftir því að sjá sem flesta í höfuðstaðnum.“

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 8. desember.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×