Sport

Fjögurra leikja banni Tom Brady aflétt

Tom Brady, leikstjórnandi New England Patriots.
Tom Brady, leikstjórnandi New England Patriots. Vísir/Getty
Leikstjórnandinn Tom Brady verður með liði sínu í fyrsta leik NFL-tímabilsins eftir slétta viku eftir að fjögurra leikja bann hans fyrir aðild sína að loftlausu boltunum í leik liðsins gegn Indianapolis Colts í úrslitum AFC-deildarinnar var þurrkað út.

Málið vakti gríðarlega athygli á sínum tíma eftir að í ljós kom að starfsmenn New England Patriots höfðu viljandi dælt lofti úr boltunum eftir að dómararnir könnuðu ástand boltanna fyrir leikinn.

Var spjótum beint að Brady en hann var dæmdur í fjögurra leikja bann af deildinni á sínum tíma. Þrátt fyrir að hafa ekki sönnungargögn sem sýndu fram á aðild hans í málinu þótti fullsannað að hann hefði átt þátt í þessu eftir að hafa eytt öllum gögnum af símanum sínum stuttu eftir að upp komst um aðgerðir boltastrákanna.

Málið vakti eðlilega mikla athygli enda um einn af þekktustu íþróttamönnum Bandaríkjanna að ræða. Var áfrýjun hans synjað af deildinni sem leiddi til þess að hann fór með málið fyrir dómstóla sem úrskurðuðu Brady í hag í dag. Sagði dómarinn sem tók málið fyrir að engar forsendur væru fyrir banninu.

Er þetta ekki í fyrsta sinn sem New England Patriots ratar í fjölmiðla fyrir svindl en frægt er þegar þjálfari liðsins lét taka upp æfingar mótstæðinganna fyrir leik árið 2007.

Getur Brady því leikið fyrsta leik NFL-deildarinnar gegn Pittsburgh Steelers eftir slétta viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×