Innlent

Fjögurra ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn 13 ára frænku

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Fjölskipaður Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi síðastliðinn fimmtudag mann í fjögurra ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn frænku sinni þegar hún var þrettán ára gömul. Brotin áttu sér stað árið 2005 eða fyrir ellefu árum en stúlkan var tíður gestur á heimili frænda síns en þau voru systra börn.

Ákæran á hendur manninum var í sex liðum. Var hann sakfelldur í öllum liðum en fjögur brotanna voru þó fyrnd. Hann var dæmdur fyrir að hafa „haldið henni niðri, þar sem hún lá á rúmi hans, strokið líkama hennar og rass, og þrátt fyrir að hún bæði hann um að hætta, tekið í buxnastreng hennar, sett titrara inn fyrir buxur hennar og inn í kynfæri hennar og kveikt á titraranum, sett hönd hennar á getnaðarlim hans og látið hana fróa honum, og síðan sett getnaðarliminn í munn hennar, haldið um hnakka hennar og látið hana hafa við hann munnmök þar til hann fékk sáðlát,“ eins og segir í ákæru.

Þá var hann einnig dæmdur fyrir að hafa sama ár „beðið hana um að nudda bert bak hans, þar sem hann lá á rúmi sínu, þannig að hún sat klofvega yfir rassi hans, síðan snúið sér við þannig að hún sat klofvega yfir kynfærasvæði hans og beðið hana um að nudda bera bringu hans, strokið mjaðmir hennar og rass utan klæða og hreyft hana til í samfarahreyfingum.“

Ritaði móður sinni bréf

Upphaf málsins má rekja til 3. október 2013 þegar konan, þá rétt komin á þrítugsaldur, mættu á lögreglustöð ásamt lögmanni sínum og lagði fram kæru á hendur frænda sínum.

Í skýrslu móðurinnar hjá lögreglu frá því í ársbyrjun 2014 greindi hún lögreglu frá því að árið 2011 hefði hún verið orðin ráðalaus gagnvart hegðun dóttur sinnar á unglingsárum. Hún hefði reynst ófáanleg til að segja frá því sem hrjáði hana fyrr en á árinu 2011 þegar hún greindi móður sinni frá kynferðisbrotum frændans.

Hún hefði þó ekki sagt henni það berum orðum heldur ritað henni bréf. Móðirin lést hins vegar áður en hún gat komið því til lögreglu en stúlkan fann hluta af bréfinu sem var ritað aftan á umslag með póststimpil frá því í janúar 2010.

Í bréfinu stóð:

„13 ára þegar hann bað mig um að nudda á sér bakið. Held ég gerði það svona 2-3 x. Byrjaði að sýna mér myndband af honum og fyrrverandi hans vera að ríða. Talaði við mig um strákavandamál og ég fór að treysta honum fyrir öllu. Hann hrósaði mér útlitslega og byggði mig upp. Fór að vilja skoða mig, snerta mig og kyssa mig. Ég fraus því mér fannst ég skulda honum þetta því hann sýndi mér hlýju. Fann vanmátt og fannst öllum vera sama um mig. Hann vissi hluti um mig sem ég vissi að hann gæti notað gegn mér t.d. að ég væri búin að prófa að reykja hass. Ég var alltaf í afneitun að hann myndi gera svona aftur því hann baðst svo mikið afsökunar þegar hann var að þreifa á mér.“

Í skýrslu mömmunnar kom fram að hún hefði haft samband við frændann eftir þetta. Hefði hún krafið hann um bætur til að standa straum af kostnaði við sálfræðiaðstoð. Hefði hann greitt 300 þúsund krónur ýmist inn á bankareikning eða í peningum.

Lögreglan rannsakaði síma móðurinn og fann tíu smáskilaboð á tímabilinu frá maí 2011 til janúar 2013. Þar ásakar móðirin frændann fyrir að hafa misnotað dóttur sína og eyðilagt líf hennar. Þá kallaði hún hann barnaníðing, hótaði að kæra og fór fram á skaðabætur.

Vildi tryggja að hann yrði látinn í friði

Frændinn neitaði sök í málinu og sagðist aldrei hafa beitt frænku sína kynferðislegu ofbeldi. Sagði hann samband þeirra heldur ekki hafa verið náið og fullmikið að halda því fram að heimili hans og fjölskyldunnar hafi verið eins og annað heimili stúlkunnar eins og hún hélt fram.

Þá sagðist hann hafa greitt móðurinni 400 þúsund krónur til að koma í veg fyrir að lögreglurannsókn færi fram á hendur sér. Þá sagðist hann hafa velt fyrir sér að stefna móðurinni fyrir fjárkúgun en ákveðið, í samráði við lögmann, að sjá til hvernig málinu myndi vinda fram.

Hann hefði greitt móðurinni peningana til að losna við málið og tryggja að hann yrði látinn af friði, þó væri hann saklaus.

Fyrir liggur að móðir stúlkunnar glímdi við veikindi sem hafði mikil áhrif á uppeldi hennar. Kaus hún því að dvelja oft og tíðum hjá frænku sinni og hennar fjölskyldu. Jafnvel þótt hún óttaðist frænda sinn.

Hún sagði að þeim frændsystkinunum hefði orðið vel til vina og hann orðið vinur sem hún þurfti á að halda og leitaði til. Í þau skipti sem hann braut á henni hefði hann hins vegar brugðist þannig við að hún endaði á að hugga hann.

Lýsti hann þeim áhyggjum hvað myndi gerast ef þetta spyrðist út.

Glímdi við fíkniefnavanda

Stúlkan leitaði til Stígamóta árið 2009 en var ekki reiðubúin að nýta sér þjónustuna. Í vottorðum frá Stígamótum kemur enn fremur fram að þangað hafi hún farið í fjögur viðtöl haustið 2013 þar sem fram kemur að hún hafi greint frá kynferðisofbeldi af hálfu frænda síns sem hafi hafist þegar hún bjó á heimili hans.

Þar hafi hún lýst því hvernig hann hafi með skipulegum hætti byggt upp traust þeirra á milli sem hann hafi svo nýtt sér til að brjóta á henni kynferðislega.

Þá kemur fram að hún glími enn við afleiðingarnar, sé kvíðin og með lélega sjálfsmynd. Hún hefði einnig leiðst út í neyslu fíkniefna en fyrir liggur að hún var farin að fika við fíkniefni unga að árum. Þá segir að hún hafi „tekið ábyrgð á ofbeldinu, verið með sektarkennd og skammast sín mikið. Þess ber að geta að þetta eru allt algengar afleiðingar af kynferðislegu ofbeldi,“ eins og segir í vottorðum frá Stígamótum.

Þjáist af áfallastreituröskun

Í bréfi Barnaverndar kemur fram að móðirin hafi leitað þangað vegna áhyggja í mars 2006 vegna áhættuhegðunar dóttur hennar. Afskipti voru höfð af henni fram í ágúst 2009 ýmist vegna útigangs hennar eða fíkniefnaneyslu.

Þá hafi komið fram að stúlkan þjáðist af andlegum kvillum auk þess sem hún sagði frá kynferðislegri misnotkun sem hún vildi þó ekki kæra.

Stúlkan ræddi við sálfræðing í fjögur skipti árið 2009 og 2010 og greindi frá fyrrnefndum kynferðisbrotum. Niðurstöður greininar sálfræðings voru þær að stúlkan þjáist af áfallastreituröskun. Einnig kom í ljós að hún átti langa og alvarlega sögu um önnur áföll með sínum afleiðingum.

1,2 milljónir í bætur

Fjölskipaður dómurinn taldi framburð konunnar trúverðugan og sömuleiðis að framburður frændans væri ekki ótrúverðugur að öðru leyti en það sem snúi að skýringum hans á því hvers vegna hann greiddi móðurinni eftir ásakanir á hendur honum fyrir barnaníð.

Telur dómurinn skýringu hans um að hann hafi verið að kaupa sig undan lögreglurannsókn mjög ótrúverðuga hafi hann verið saklaus. Taldi dómurinn rétt að leggja frásögn stúlkunnar til grundvallar en hafna framburði frændans.

Var hann sakfelldur af öllu því sem hann var sakaður um fyrir utan að hafa strokið frænku sinni um rassinn eins og stóð í ákærunni. Hins vegar brotin í fjórum af sex ákæruliðum fyrnd. Frænkan sagði fyrir dómi að hann hefði ekki gert það.

Þá þarf frændinn að greiða 1,2 milljónir króna í bætur.

Dóminn í heild má lesa hér.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×