Enski boltinn

Fjögur mörk frá Martial í viðbót kosta United 1,2 milljarða

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Anthony Martial fagnar marki í gær.
Anthony Martial fagnar marki í gær. vísir/getty
Anthony Martial, framherji Manchester United, þakkaði traustið í gærkvöldi þegar hann skoraði tvívegis í 4-1 sigri Manchester United gegn West Ham í átta liða úrslitum enska deildabikarsins.

Martial hefur ekki átt fast sæti í liði Manchester United á leiktíðinni en spilaði vel í gær þegar United-liðið valtaði yfir West Ham og skaut sér í undanúrslitin.

Kaup Manchester United á Martial vöktu nokkra athygli á sínum tíma enda höfðu ekki margir heyrt um unglinginn þegar enska félagið reiddi frá ríflega 30 milljónir punda fyrir hann. Það var bara upphafsgreiðsla því endanleg upphæð gæti numið rétt tæplega 60 milljónum punda með árangurstengdum greiðslum.

Það styttist í eina slíka eftir mörkin tvö í gær. Martial er nú búinn að skora 21 mark fyrir Manchester United en þegar hann skorar 25. markið þarf United að borga franska liðinu Monaco, þaðan sem hann var keyptur, 10 milljónir evra eða 1,2 milljarð íslenskra króna.

United þarf einnig að borga Monaco sömu upphæð þegar Martial spilar 25. landsleikinn fyrir Frakkland og aðrar 10 milljónir evra ef hann verður tilnefndur sem besti leikmaður heims.

Fyrra mark Martial gegn West Ham: Seinna mark Martial gegn West Ham:



Fleiri fréttir

Sjá meira


×