Erlent

Fjögur kíló af kókaíni í bíl 91 árs kardinála

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Hér er Mejia til hægri, ásamt Jóhannesi Páli Páfa. Myndin var tekin árið 2003.
Hér er Mejia til hægri, ásamt Jóhannesi Páli Páfa. Myndin var tekin árið 2003. Vísir/AFP
Fjögur kíló af kókaíni og tvö hundruð grömm af kannabisefnum fundust í bíl í eigu 91 árs gamls kardinála Vatíkansins. Tveir menn voru handteknir eftir að hafa reynt að smygla efnunum til Frakklands.

Eigandi bílsins heitir Jorge Maria Mejia og var áður bókavörður Vatíkansins. Hann er í miklum metum innan Vatíkansins; á meðfylgjandi mynd má sjá hann ásamt Jóhannesi Páli Páfa II, en auk þess má nefna að tveimur dögum eftir að Frans páfi tók við embætti sínu heimsótti hann Mejia, sem var rúmliggjandi eftir að hafa fengið hjartaáfall.

Franska blaðið Le Monde greinir frá því að tveir menn hafi verið í bíl kardinálans þegar eiturlyfin fundust. Annar þeirra er 31 árs og hinn 41 árs. Í fréttum erlendra miðla frá málinu kemur fram að aðstoðarmaður Mejia hafi treyst mönnunum til að fara með bílinn í viðgerð og árlega skoðun.

Mennirnir eru sagðir hafa keyrt bílinn til Spánar, þar sem þeir munu hafa keypt eiturlyfin. Þaðan eru þeir sagðir hafa farið til Frakklands og stöðvaði franska lögreglan þá í borginni Chambéry, við reglubundið eftirlit. Eftir stutt spjall fóru lögreglumennirnir að gruna mennina tvo í bílnum um græsku. Þeir voru beðnir að yfirgefa bílinn og þar fundust eiturlyfin og voru mennirnir handteknir. Lögreglan í Lyon rannsakar nú hvort að mennirnir tengist smyglhring.

Mennirnir héldu að bílnúmeraplöturnar frá Vatíkaninu myndu vernda þá og fæla spænska og franska lögreglumenn frá því að stoppa þá.

Í yfirlýsingu frá Vatíkaninu kemur fram að hvorugur mannanna sé með vegabréf þaðan og því tengist það ekki málinu lagalega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×