Íslenski boltinn

Fjögur gul spjöld í fimm leikjum og Dokara fyrstur í bann | Missir af stórleik

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ermir Dokara missir af leik Ólsara gegn FH.
Ermir Dokara missir af leik Ólsara gegn FH. vísir/daníel
Emir Dokara, hægri bakvörður nýliða Ólsara í Pepsi-deild karla í fótbolta, var í gær úrskurðaður í leikbann af aganefnd KSÍ fyrstur allra í Pepsi-deildinni þetta sumarið.

Aganefndin þurfti ekki að úrskurða um neitt þar sem bannið færist sjálfkrafa yfir Dokara vegna spjaldasöfnunnar. Hann er búinn að fá fjögur gul spjöld í fyrstu fimm leikjum Pepsi-deildarinnar en fjögur gul þarf til að fara sjálfkrafa í leikbann.

Dokara fékk gult í fyrsta leik gegn Breiðabliki sem nýliðarnir unnu, 2-1, með frábærum mörkum Þorsteins Más Ragnarssonar og Kenan Turudija, en Bosníumaðurinn tók sér svo stutta pásu frá spjaldasöfnun í sigri á Val í fyrsta heimaleik liðsins.

Dokara fékk svo gult í síðustu þremur leikjum gegn ÍBV á útivelli, Skaganum á heimavelli og í síðasta leik Ólsara gegn Fjölni í Grafarvoginum sem nýliðarnir töpuðu, 5-1.

Þessi öflugi bakvörður getur verið með liðinu þegar Ólsarar mæta Stjörnunni í 32 liða úrslitum bikarsins annað kvöld í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD. Spjöld í deild og bikar voru aðskilin á þar síðasta þingi KSÍ.

Dokara missir aftur á móti af stórleik Ólsara gegn FH í sjöttu umferð Pepsi-deildarinnar á sunnudaginn þar sem leikbann hans tekur gildi í hádeginu á föstudaginn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×